
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrum forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders birti í nótt færslu á Facebook, hvar hann hvatti landa sína til þess að fylgja fordæmi Íslands í baráttunni gegn launamun kynjanna og krefjast jafnra launa fyrir jafna vinnu, óháð kyni, kynþætti, kynhneigð og þjóðerni.
Sanders birti færsluna við frétt Aljazeera um að Ísland hefði fært í lög, að nú væri ólöglegt að borga karlmönnum meira en konum, fyrir sömu störf, fyrst landa í heiminum, sem er hin svokallaða jafnlaunavottun, sem tók gildi þann 1. janúar síðastliðinn.
Í fréttinni er vitnað í Dagný Ósk Aradóttur Pind úr Kvenréttindafélagi Íslands, sem segir að þrátt fyrir lög þess efnis að karlar og konur skuli fá sömu laun fyrir sömu vinnu, hafi launamunur verið staðreynd hér á landi. Með nýjum lögum, sem krefjast þess að fyrirtæki eða opinberar stofnanir með yfir 25 manns í vinnu, þurfi vottorð frá ríkinu um að vinnustaðurinn borgi körlum og konum sömu laun fyrir sömu vinnu, sé komið nýtt verkfæri til að tryggja launajafnrétti.
Þorsteinn Víglundsson, þáverandi félagsmálaráðherra, lagði fram frumvarpið í sumar. Var það samþykkt með 49 atkvæðum gegn átta, en Píratar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kusu gegn frumvarpinu. Óli Björn Kárason, Sjálfstæðisflokknum sat hjá. Athygli vakti að Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki, greiddi atkvæði með frumvarpinu, en sagði í atkvæðaskýringu að hann hefði ekki átt svefnlausar nætur af hrifningu yfir frumvarpinu, þótt hann axlaði þessa ábyrgð nú. „Á fagmáli heitir það að kyngja ælunni í þágu mikilvægra hagsmuna,“ sagði Brynjar.