
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, skrifar grein í Morgunblaðið í dag hvar hún óskar Landsrétti heilla, af því tilefni að þetta nýja dómsstig tók til starfa í dag. Hún notar þó einnig tækifærið til að slá aðeins frá sér, en samkvæmt dómi Hæstaréttar braut Sigríður lög er hún skipaði dómara við Landsrétt, með því að óska ekki eftir nýju áliti dómnefndar um umsækjendur, þar sem hún var ósammála fyrstu niðurstöðum nefndarinnar og brá þá á það ráð að skipta út fjórum nöfnum á listanum fyrir önnur fjögur, sem voru neðar á listanum. Sigríður segist vera ósammála dómnum, en uni honum. Samt vill hún breyta verklaginu.
Í grein sinni segir Sigríður það meðal annars ánægjulegt að hafa fengið að koma að skipun 15 dómara við Landsrétt, þó henni væri ljóst að styr gæti staðið um valið. Hún segir einnig að forðast beri algert sjálfstæði kjörinna fulltrúa og dómstóla, svo ekki myndist ríki í ríkinu:
„Ég get tekið undir með þeim sem vilja lágmarka áhrif stjórnmálamanna. Það verður þó ekki fram hjá því litið að kjörnir fulltrúar hafa óhjákvæmilegu hlutverki að gegna í lýðræðislegu þjóðfélagi, meðal annars gagnvart dómstólum. Fullkominn aðskilnaður milli kjörinna fulltrúa og dómstóla samræmist varla hugmyndum um þrígreiningu ríkisvaldsins. Enginn einn þáttur ríkisvaldsins má vera svo ótengdur öðrum að hann verði beinlínis ríki í ríkinu. Engin grein ríkisvaldsins á að geta lotið bara sjálfri sér.“
Þá segir hún að hennar skilningur sé sá að löggjafinn eigi að hafa hönd í bagga með skipan dómara:
„Það er ljóst af greinargerð með lagabreytingunni 2010 að vangaveltur voru uppi um að fela dómnefnd í raun alfarið að skipa dómara, t.d. með því að gera ráðherra undantekningarlaust skylt að fara eftir áliti nefndarinnar. Hins vegar var sérstaklega vikið að því sjónarmiði að ábyrgðin á útnefningu dómara þurfi að vera hjá þeim sem beint eða óbeint sækir umboð sitt til þjóðarinnar. Með því að fela ráðherra að útnefna dómara er tryggt að valdið liggur hjá stjórnvaldi sem ber ábyrgð gagnvart þinginu. Og með valnefnd sem að hluta er skipuð af dómstólum má finna hæfilegt jafnvægi milli dómstóla og framkvæmdavalds og þar með einnig löggjafans. Niðurstaðan við lagabreytinguna árið 2010 var í samræmi við þetta. Það var og er enn að mínu mati ótvíræður vilji löggjafans að hafa hönd í bagga með skipan dómara hér á landi.“
Þá gagnrýnir Sigríður hæfnisnefndina fyrir að velja aðeins 15 manns fyrir embættin 15:
„Að sama skapi kom það mér á óvart að hæfnisnefndin komst að þeirri niðurstöðu að nákvæmlega 15 umsækjendur væru hæfastir í embættin 15. Ég taldi að fleiri umsækjendur væru engu síðri en þessir 15. Ég er ekki fyrsti ráðherrann sem stendur frammi fyrir þeim möguleika að víkja frá niðurstöðu nefndarinnar. Ólíkt fyrirrennurum mínum hafði ég hins vegar lagaskyldu til þess að bera upp tillögu mína um skipan dómara við Alþingi, hvort sem hún væri í samræmi við álit dómnefndarinnar eða ekki. Löggjafinn hafði nefnilega sett árið 2016 sérstakt ákvæði um skipan dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og þannig tryggt að Alþingi hefði lokaorðið um þá skipun. Það var skynsamlegt og eðlilegt.“
Sigríður segist una dómi Hæstaréttar þó hún sé honum ósammála og segist ætla að hefja „samtal“ við löggjafann um fyrirkomulag „þessara mála“ án þess að útskýra það nánar:
„Nú liggur hins vegar fyrir dómur Hæstaréttar þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ég hafi ekki rannsakað mál nægilega áður en ég tók þá ákvörðun sem Alþingi síðar staðfesti. Ég uni þeim dómi ágætlega þótt ég sé honum ósammála. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga er afar matskennd. Hvenær er mál nægilega rannsakað? Ég hef lýst því hvernig ég muni hafa forgöngu um endurskoðun á verklagi við skipan dómara í ljósi dómsins. Þá mun ég hefja samtal við löggjafann um fyrirkomulag þessara mála enda varðar dómur Hæstaréttar ekki síður valdheimildir Alþingis en ráðherra. Að öðru leyti var aðalkröfu stefnenda í þessu dómsmáli, um ógildingu skipunar dómara við Landsrétt, vísað frá dómi. Tillaga mín um skipan dómara við Landsrétt, sem Alþingi samþykkti, stendur þannig óhögguð.“
Í lokin þakkar hún umsækjendum um embættin fyrir áhugann á störfum innan réttarkerfisins og óskar þeim farsældar, en þess má geta að tveir dómarar hafa fengið miskabætur frá ríkinu vegna skipunar Sigríðar og tveir til viðbótar hafa farið fram á miska-eða skaðabætur vegna málsins.