Maður spyr – hvers konar nátttröllaháttur það sé að hafa einungis opinn einn kjörstað á öllu höfuðborgarsvæðinu fyrir bæjar-og sveitastjórnarkosningarnar á laugardaginn í næstu viku?
Utankjörfundaratkvæðagreiðslan fer fram í Smáralind. Þangað þarf fólk að fara hvort sem það býr í Kópavogi, Reykjavík, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi eða Mosfellsbæ.
Jú, Smáralindin er tiltölulega miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, þannig séð. En þangað er samt langt að aka frá sumum af þessum bæjarfélögum.
Ég tala nú ekki um ef fólk er gangandi eða hjólandi – eða í strætó. Það getur verið býsna flókið að komast i strætisvagni í Smáralindina.
Því auðvitað eru ekki allir á bíl. Meðal þeirra sem hafa kosningarétt eru 18 ára unglingar. En líka gamalt fólk og öryrkjar. Og fólk sem hefur ekki efni á að eiga bíl.
Í Stundinni má lesa hvernig sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hunsaði tillögur um að kjörfundur færi fram víðar en í Smáralindinni. Þessi sýslumaður er ekki þekktur fyrir sérstaka lipurð. Bæði Reykjavíkurborg og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu báðu um að atkvæðagreiðslan yrði á fleiri stöðum. Stundin segir að ekki hafi borist nein viðbrögð frá sýslumanninum.
Þetta jaðrar náttúrlega við það sem kallast þumbaraskapur. Á tíma dvínandi kjörsóknar er sjálfsagt að hafa kjörstaði opna sem víðast. Það þarf að hafa fyrir því að ná í kjósendur. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á að vera á áberandi stöðum (Smáralindin er prýðileg að því leyti), í hverju sveitarfélagi og auðvitað á fleiri stöðum en einum í stærri bæjunum.
Þetta getur ekki verið flókin framkvæmd, kostnaðurinn er örugglega ekki óyfirstíganlegur – og þetta er sjálfsagt í nútímalegu lýðræði.