Reglur um notkun og þátttöku ríkisstofnana á samfélagsmiðlum verður efni fyrirspurnar Helga Hrafns Gunnarssonar Pírata á næstunni. Helgi greinir frá þessu á Pírataspjallinu á Facebook, eftir að Daði Freyr Ingólfsson lyfjafræðingur, sem skipaði 12. sæti á lista Pírata í Reykjavík norður fyrir síðustu Alþingiskosningar, bar upp erindið eftir raunir hans við Lyfjastofnunm. Hann var sjálfur „blokkaður“ af facebooksíðu Lyfjastofnunar „fyrir að vera ósammála nokkrum ákvörðunum sem þeir eru að flagga á veggnum hjá sér,“ að sögn Daða.
Daði hafði gagnrýnt stuðning Lyfjastofnunnar við rafrettufrumvarpið og hafði vonast eftir viðbrögðum, en var í staðinn „blokkaður“ líkt og áður segir.
Í kjölfarið spurði Daði velferðarráðuneytið hvort Lyfjastofnun væri þetta væri heimilt. Samkvæmt svari ráðuneytisins er það stjórnvöldum í sjálfsvald sett hvernig aðgangsstýringum sé hagað á samfélagsmiðlum sínum, þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvarðanir að ræða:
„Stofnunum ráðuneytisins er í sjálfsvald sett hvernig þær haga aðgangsstýringum á samfélagsmiðlum sínum, enda sé ekki verið að taka stjórnvaldsákvarðanir sem kveða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í tilteknu máli. Kvörtunum um aðgangsstýringar ber því að beina til stofnunarinnar sjálfrar,“
segir í svarinu,
Helgi Hrafn biður um aðstoð við að orða fyrirspurn sína, en hann segir málið verða æ forvitnilegra því meira sem hann hugsar um það:
„Ég var að senda inn fyrirspurn til forsætisráðherra sem ég reyndar bað líka um aðstoð við að orða almennilega, því mér tekst ekki að orða þetta óklaufalega.
1. Hvaða reglur gilda um notkun ríkisstofnana á samfélagsmiðlum og þátttöku þeirra í umræðum á samfélagsmiðlum?
2. Hvaða rétt hefur borgarinn til að tjá sig á svæðum ríkisstofnana sem eru opin almenningi á samfélagsmiðlum?
3. Hvaða skyldur bera ríkisstofnanir til að meðhöndla og svara erindum borgara sem berast í gegnum samfélagsmiðla, ýmist með einkaskilaboðum eða á svæði sem almenningur hefur aðgang að?
Sjáum hvað kemur út úr því.
Þessi spurning verður eiginlega áhugaverðari því meira sem maður pælir í henni.“