fbpx
Laugardagur 13.ágúst 2022
Eyjan

Barátta um völd – Jón Steinar Gunnlaugsson

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 23. janúar 2018 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

 

Í 14. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að ráðherrar skuli bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Skipun dómara fellur undir það sem hér er nefnt
stjórnarframkvæmd. Það er því skylt að haga löggjöf landsins með þeim hætti að sá ráðherra sem í hlut á, dómsmálaráðherra, taki ákvarðanir um skipun nýrra
dómara.

Í III. kafla laga um dómstóla er að finna ákvæði um skipun dómara. Þessi
ákvæði komu inn í lögin á árinu 2010 og er víst að valdahópurinn við Hæstarétt
og eftir atvikum aðra dómstóla beitti sér fyrir setningu þeirra. Þar er kveðið á
um að dómnefnd skuli meta hæfni umsækjenda um dómaraembætti.
Nefndarmenn eru fimm talsins og eru þeir tilnefndir af Hæstarétti, Landsrétti
Dómstólasýslunni og Lögmannafélagi Íslands. Alþingi kýs svo einn. Þessi
nefnd á að raða umsækjendum upp eftir hæfni og er ráðherra óheimilt að skipa
mann í embættið sem dómnefndin hefur ekki talið hæfastan til að gegna því.
Sagt er í lögunum að frá þessu megi þó víkja ef Alþingi samþykki tillögu
ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan umsækjanda, sem fullnægi að
mati dómnefndar skilyrðum til að hljóta skipun í embættið.

Ábyrgðarlaus nefnd fær völdin

Þessi lagaákvæði virka þannig í reynd að valdið til að skipa nýja dómara hefur
verið tekið úr höndum dómsmálaráðherra og fengið þessari nefnd. Að vísu getur
ráðherra borið tillögu um frávik undir Alþingi. Sú heimild er alveg óvirk í
framkvæmd, enda skirrast ráðherrar við að stofna til ágreinings og átaka við
skipun nýrra dómara. Nefndin er með öllu ábyrgðarlaus af ákvörðunum sínum.
Fræðimenn í lögfræði hafa dregið í efa að þessi skipan standist fyrrgreint
ákvæði stjórnarskrár. Þeir hafa mikið til síns máls.
Í ljós hefur komið á undanförnum árum að þessi dómnefnd hefur misfarið með
vald sitt. Umsækjendur, sem vitað er að eru nefndinni og dómurunum sem að
henni standa þóknanlegir, hafa verið teknir fram yfir aðra umsækjendur sem
augljóst er að hafa staðið framar að hæfni. Þannig hafa verið valdir
umsækjendur sem eru gamlir skólabræður og persónulegir vinir sitjandi dómara
og þá teknir fram yfir þá sem hæfari hefðu átt að teljast sé miðað við starfsferil
og hlutlaust hæfnismat.

Þeim áróðri er haldið uppi að „sérfræðingar“ í nefnd taki frekar heiðarlega
afstöðu til umsækjenda um dómaraembætti en pólitískur ráðherra. Þetta er
mikill misskilningur. Bæði starfandi dómarar og alls kyns lögfræðingar kringum
þá eru auðvitað uppfullir af huglægum sjónarmiðum, bæði vegna viðhorfa í
stjórnmálum, en þó öllu heldur vegna persónulegra tengsla við þá sem sækja um
embætti. Almenningur ætti ekki að láta þennan áróður blekkja sig.
Síðan hefur komið í ljós að dómaraelítan sækist ákaflega eftir valdinu til að
ákveða hverjir bætast skuli í hópinn. Segja má að þjóðin hafi að undanförnu
orðið vitni að einhvers konar valdabaráttu þar sem dómarahópnum virðist ekkert
vera heilagt. Alvarlegast hefur verið að fylgjast með því þegar dómsvaldið hefur
hreinlega verið misnotað í þessari valdabaráttu gegn ráðherra dómsmála, sem þó
hefur gengið allt of skammt í að reyna að tryggja skapleg vinnubrögð á þessu
sviði.

Lýðræði og ábyrgð á stjórnarathöfnum

Við teljum okkur búa við lýðræðislegt stjórnkerfi. Til þess heyrir að þjóðkjörnir
fulltrúar þjóðarinnar skuli taka ákvarðanir um málefni sem varða almenning.
Þeir sæta svo ábyrgð í kosningum, þar sem meðferð þeirra á ríkisvaldi er til
meðferðar. Fulltrúar okkar sem valdir hafa verið af okkur sjálfum eru auðvitað
miklu líklegri til að haga ákvörðunum sínum á hlutlausan og málefnalegan hátt,
heldur en klíkubræður á því málasviði sem um ræðir hverju sinni. Og bregðist
hinir þjóðkjörnu fulltrúar trausti getum við látið þá finna fyrir því með þeim
aðferðum sem lýðræðið mælir fyrir um. Af þessum ástæðum er í stjórnarskránni
kveðið á um að ráðherra skuli bera ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum.
Hinn 19. desember s.l. voru kveðnir upp tveir dómar í Hæstarétti í málum
umsækjenda um dómarastöður í Landsrétti, sem af nefndinni höfðu verið taldir í
hópi 15 hæfustu, en Alþingi skipaði ekki í störfin. Hafa ber í huga að í þessu
tilviki var unnið eftir bráðabirgðaákvæði í dómstólalögum um þessa fyrstu
skipun dómara í Landsrétt og 15 dómarar skipaðir í einu. Allt að einu fjallaði
fyrrgreind dómnefnd um umsækjendur og raðaði þeim upp. Ráðherra gerði svo
tillögu um 15 dómaraefni til Alþingis, sem tók ákvörðun um hverjir skyldu
skipaðir.

Í tillögu ráðherra til Alþingis voru gerðar fjórar breytingar frá uppröðun
nefndarinnar. Í bráðabirgðaákvæði laganna var kveðið á um að Alþingi skyldi
taka ákvörðun um skipun þessara fyrstu 15 dómara í Landsrétt. Var tekið fram
að ráðherra skyldi gera tillögu til Alþingis um nöfn þeirra. Ekkert var sagt um
að ráðherranum skyldi vera skylt að gera tillögu um þá 15 sem nefndin hafði
raðað efst. Þar var heldur ekki að finna neinar reglur um að heimild ráðherra til
að víkja frá niðurröðun nefndarinnar væri bundin öðrum skilyrðum en þeim að
dómaraefni þyrfti að fullnægja, að mati dómnefndar, öllum skilyrðum til að geta
orðið dómari. Það gerðu allir sem ráðherra lagði til að yrðu skipaðir. Það var því
augljóst hverjum manni að ráðherrann fór í einu og öllu að lögum við meðferð
málsins. Alþingi samþykkti síðan tillögu ráðherrans.

Hirta þurfti ráðherrann

En ekki Hæstiréttur! Þar á bæ una menn því ekki að dómaraelítan skuli ekki í
einu og öllu fá að ráða því hverjir verði skipaðir í dómaraembætti í þessu landi.
Það varð því að hirta ráðherrann fyrir að hafa gert frávik frá uppröðun
dómnefndarinnar.

Það var gert með því að fallast á miskabótakröfur umsækjendanna tveggja í
málunum sem dæmd voru í desember s.l. Forsendur í þeim dómum eru ekki
frambærilegar. Fyrst þurfti rétturinn að komast að þeirri niðurstöðu að
ráðherrann hefði breytt andstætt lögum við gerð tillögu sinnar til Alþingis. Það
var gert með því að telja að ráðherrann hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu
samkvæmt stjórnsýslulögum, þegar tillagan var gerð. Hvaða rannsóknarskyldu?
Lágu ekki fyrir allar upplýsingar um þessa umsækjendur í umsóknum þeirra
sjálfra og umfjöllun dómnefndarinnar um þá? Hvað átti ráðherrann að rannsaka?
Ráðherrann var bara á annarri skoðun en nefndin um niðurröðun hennar.
Reyndar studdist sú niðurröðun við alveg galnar starfsaðferðir, eins og sýnt
hefur verið fram á að undanförnu, sjá m.a. grein mína „Stórisannleikur“ í Mbl.
og Eyjunni 9. janúar s.l.

Til viðbótar þessu er ljóst að ráðherrann tók alls ekki þá ákvörðun sem hér var
fjallað um. Það gerði Alþingi. Hafi skort eitthvað á rannsókn málsins áður en
ákvörðun var tekin hlutu það að vera þeir sem ákvörðun tóku sem brugðust
þeirri skyldu. Það hlutu þá að hafa verið alþingismennirnir, sem ákváðu að ráða
aðra en málssóknarmenn í embættin. Aðalatriðið er allt að einu, að ekkert skorti
á rannsókn málsins, hvorki hjá ráðherra né Alþingi, áður en ákvörðun var tekin.

Bregðast verður við

Það er svo alveg stórbrotin niðurstaða að sá sem sækir um starf og fær það ekki
geti krafist miskabóta á þeim grundvelli að æra hans hafi meiðst við að verða
ekki skipaður í embætti. Þetta er auðvitað bara hlægileg vitleysa. Mikið hlýtur
þeim dómurum að liggja á sem dæma svona.

Nauðsynlegt er að þjóðin átti sig á því að dómaraelítan er í valdabaráttu. Hún
vill fá að ráða því hverjir hljóti laus dómaraembætti. Og hún virðist ekki hika
við að misnota á grófan hátt dómsvald sitt til að kenna þeim ráðherra lexíu sem
ekki beygir sig í duftið.

Málið er mjög alvarlegt og kallar á viðbrögð af hálfu Alþingis. Endurskoða
verður reglur um skipan nýrra dómara og uppræta þá með öllu áhrif sitjandi
dómara við val milli umsækjenda.

Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Trump bregst við húsleitinni – Birtir dularfullt myndband – „. . . and the best is yet to come“

Trump bregst við húsleitinni – Birtir dularfullt myndband – „. . . and the best is yet to come“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir sendir Brynjari tóninn – „Gleymum því aldrei“

Sigmundur Ernir sendir Brynjari tóninn – „Gleymum því aldrei“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Formaður Læknafélagsins svarar fullyrðingum um að heilbrigðiskerfið sé óseðjandi hít

Formaður Læknafélagsins svarar fullyrðingum um að heilbrigðiskerfið sé óseðjandi hít
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Fasteignaverð gæti tekið dýfu

Fasteignaverð gæti tekið dýfu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur segir landlæga þrjósku valda því að Ísland gengur ekki í ESB – „Ís­lenska krónan er fíllinn í stofunni“

Ólafur segir landlæga þrjósku valda því að Ísland gengur ekki í ESB – „Ís­lenska krónan er fíllinn í stofunni“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sniðganga Trump á gamla heimavellinum hans

Sniðganga Trump á gamla heimavellinum hans