Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins upplýsir í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag að hann hafi árið 2015 fengið tvo tölvupósta frá Robert Downey.
Í þeim bað Robert Davíð um að skrifa undir meðmælabréf fyrir sig vegna fyrirhugaðrar beiðni um uppreist æru.
Davíð segist ekki hafa opnað þessa pósta fyrr en all löngu eftir að þeir bárust honum þar sem hann kannaðist ekki við nafn sendanda. Þegar honum varð ljóst hvert erindið var hafi hann látið þeim ósvarað.
Fundur með Bjarna Benediktssyni
Reykjavíkurbréf helgarinnar ber titilinn „Stormur kom upp í tebollanum og tveir flokkar drukknuðu.“ Þar segir Davíð frá því að hann hafi á dögunum átt hádegisverðarfund með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra.
Fram kom í upphafi fundar að Bjarni væri á förum utan daginn eftir vegna Allsherjarþings SÞ. Það átti eftir að breytast. Samverustundin var í hálfan þriðja tíma, notaleg og fróðleg. Margt bar á góma. Sumt á léttum nótum, eins og vill verða þegar samstarfsmenn hittast, en annað alvarlegra og áhugavert, ekki síst þegar sest var í stellingar og stjórnmálin rædd, vítt og breitt, en einkum þó það sem að Íslandi snýr þessi misserin. Af ýmsu var að taka. Lengst af var ekkert minnst á þau „stórmál“ sem farið hafa hæst í umræðunni. En þegar leið að lokum máltíðar nefndi Bjarni að faðir hans Benedikt myndi birta yfirlýsingu vegna umsagnar sem hann hefði gefið að beiðni Hjalta þess sem slæðst hefur inn í umræðu um uppreist æru í framhaldi af fjaðrafoki um mál Roberts Downey. Margir þekkja vel til þess að Benedikt Sveinsson er bóngóður og artarlegur maður, ekki síst gagnvart þeim sem höllum fæti standa og hefur jafnan haft hljótt um það þegar hann greiðir götu slíks fólks. Hann verður áttræður á næsta ári. Ekkert bendir til þess að undirskrift hans hafi ráðið neinum úrslitum um lok þess máls sem þarna var undir, samanber það sem segir hér síðar.
Síðan skrifar Davíð Oddsson:
En að gefnu þessu tilefni nefndi bréfritari við gestgjafann að hann sjálfur hefði fengið tölvupóst frá Robert Downey einhvern tíma á árinu 2015. Alkunna er að bréfritari er ekki í hópi helstu tölvusnillinga þjóðarinnar og reynir því að virða fáeinar grundvallarreglur sem sérfræðingar Árvakurs hafa náð að koma inn fyrir þykkskinnið. Ein er sú að vera seinn til að opna tölvupósta sem koma frá aðilum sem móttakandinn þekkir lítt til. Árvakur, eins og margir, hefur orðið fyrir ónotum frá tölvuþrjótum og tæknihrekkjusvínum sem geta gert fjölmiðli, sem aldrei má neinn tíma missa, mjög erfitt fyrir.
Svaraði ekki póstunum
Davíð skrifar að hann hafi ekki kannast við nafnið Robert Downey og því hafi hann af tölvuöryggisástæðum ekki opnað þennan tölvupóst og heldur ekki þegar annar barst frá sama manni nokkru síðar. Það var ekki fyrr en seinna að Davíð Oddssyni varð ljóst að þessi Robert Downey væri íslenskur maður:
Alllöngu síðar var rekist á einhvers staðar að Robert Downey hefði áður verið þekktur undir öðru nafni sem bréfritari kannaðist við og hafði útskrifast úr lagadeild um líkt leyti fyrir rúmum fjórum áratugum. Voru því gömlu póstarnir opnaðir og þá kom í ljós að Robert Downey „alias Róbert Árni Hreiðarsson“ hafði í tölvupósti beðið bréfritara um að veita sér atbeina vegna umsóknar hans gagnvart yfirvöldum um endurheimt æru og réttinda í samræmi við reglur sem um slíkt gilda.
Þessi beiðni var óneitanlega með nokkrum ólíkindum. Bréfritara rámaði ekki í fréttir um að Róbert hefði verið ákærður, dæmdur og fangelsaður fyrir viðurstyggilega glæpi. Hann hafði ekki vitað hvað Róbert hafði aðhafst áratugina á undan þeim kaflaskilum eða árin þar á eftir. Kannast raunar ekki við að hafa séð honum bregða fyrir á förnum vegi í áratug eða lengur. Hvaða mark hefði verið á umsögn um eða áliti á hegðun og framferði Roberts Downey frá manni sem hefði ekki getað fullyrt um það hvort sá maður væri lífs eða liðinn? Þessum seint opnuðu tölvupóstum var því aldrei svarað.
Í Reykjavíkurbréfinu fjallar Davíð svo um uppreist æru og skrifar að gerð hafi verið „heimskuleg aðför“ að forsætis- og dómsmálaráðherra.
Árásirnar sem gerðar eru á forsætisráðherrann og dómsmálaráðherrann nú í uppnáminu eru óeðlilegar og ósanngjarnar.
Hann segir að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafi brugðist rétt við þegar hún hafi synjað um upplýsingar. Lokaorð Reykjavíkurbréfsins eru þessi:
Það blasir því við að ráðherrann sýndi virðingarverða varkárni og engin „leyndarhyggja“ (nýjasti frasinn) kom við sögu. Ekkert samsæri. Engin spilling. Stjórnmálamenn sem nota hvert tækifæri til að hrópa „spilling“ eru ekki endilega þeir sem hafa hreinastan skjöldinn.
Það sýna dæmin svo ótal mörg.