Einhugur er hjá þingflokki Vinstri grænna, Viðreisnar, Framsóknarflokksins og Pírata um að rjúfa þing og boða til kosninga. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar nú í Valhöll um næstu skref, en miðað við vilja meirihluta þingmanna þá stefnir allt í að Bjarni Benediktsson muni fara á fund forseta Íslands í dag eða á næstu dögum og biðjast lausnar.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna sagði í samtali við Vísi í morgun það vera einhug í röðum flokksins að boða til nýrra kosninga. Sömu sögu sagði Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins. Viðreisn fór fram á kosningar í nótt í kjölfar stjórnarslitanna. Fram kemur svo í tilkynningu frá Pírötum að þingflokkurinn skori á Alþingi að samþykkja nýja stjórnarskrá og boða til kosninga. Alls telja þessir þingflokkar 35 þingmenn og er því meirihluti á þingi fyrir að boða til nýrra kosninga. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar vildi ekki gefa upp afstöðu þingflokksins varðandi kosningar í samtali við RÚV, sagði hann ekki ólíklegt að það verði kosið, en á Fésbók í morgun hafnaði hann alfarið hugsanlegu stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Ekki hefur náðst í þingmenn Bjartrar framtíðar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.