„Mér finnst það virkilega dapurt hvaða aðferðum pólitískir andstæðingar beita, með óhróðri og ósannindum. Ég hlustaði á þingið í gærkvöldiog meira að segja þar, í pontu Alþingis, var verið að segja óbeint og undir rós að það þurfi nú að vara sig á svona liði sem er að ala á útlendingaandúð og annað slíkt. Þetta er eina aðferðin sem þeir kunna og þekkja, við erum komin yfir Samfylkinguna í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Við sjáum í fyrsta skipti í langan tíma VG fara upp fyrir 20% í Þjóðarpúlsi Gallup og einhversstaðar tökum við þetta fylgi.“
Þetta sagði Inga Sæland formaður Flokks fólksins í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun, vísar hún til orða Kolbeins Óttarsonar Proppé þingmanns Vinstri grænna sem sagði fyrr í vikunni að Flokkur fólksins væri að ósekju að tengja saman málefni hælisleitenda og flóttafólks við að ekki væri nógu mikið gert í málefnum aldraðra og öryrkja:
„Þegar þú ert að tengja þetta allt saman þá ertu ekki bara að ala á útlendingaandúð, sem er nógu slæmt eitt og sér, heldur ertu líka að gefa ráðamönnum afsökun. Þeir þurfa ekkert að taka til í þessum málaflokkum því það er alltaf verið að segja „þetta er eina ástæðan fyrir þessu,“ segir Flokkur fólksins og fleiri, sé kostnaður við hælisleitendur og flóttafólk,“
sagði Kolbeinn.
Sjá einnig: Þingmaður VG hjólar í Flokk fólksins: „Þetta er algjörlega galið“
Inga Sæland hafnar þessu alfarið:
Það er ekki eitt einasta aukatekið orð neinsstaðar sem að þarna er sagt er satt.
Flokkur fólksins hefur ítrekað verið bendlaður við útlendingaandúð að undanförnu, en því hefur Inga ávallt hafnað.
Sjá einnig: Inga segir hjólahýsafólkið í Laugardal flóttamenn í eigin landi: Fátækir eiga að fá peninga hælisleitenda
Inga segir orð Kolbeins ósvífin:
Kolbeinn Óttarson Proppé hefur nefnt okkur á nafn með eiginlega ósvífnum hætti sem kemur á óvart. Mér finnst þetta óvandað og óverðskuldað líka og segja meira um hann heldur en nokkuð annað.
Inga segir að vissulega hafi hún lýst yfir virðingu á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra fyrir að hafa komið málshraða á umsóknum hælisleitenda frá öruggum löndum í betra horf, en hún sé hins vegar ósammála ráðherra þegar kemur að því að vísa Mary og Haniye og fjölskyldum þeirra úr landi:
Auðvitað eiga þær að fá að vera hér og ég vil hjálpa þeim og taka á móti þeim því önnur fjölskyldan er nú þegar búin að vera hér í eitt og hálft ár, að taka þátt í samfélaginu. Litla stúlkan Mary farin að tala íslensku og pabbi hennar að vinna hér. Það hefur hvergi nokkurstaðar komið fram í málflutningi Ingu Sæland eða okkar að við séum á móti flóttamönnum, að við séum á móti innflytjendum, það eina sem við höfum talað um er hvað það sé mikilvægt að flýta málshraða hvað varðar þessar umsóknir.