„Engu er líkara en menn átti sig ekki á að Gunnar Smári Egilsson kýs að draga athygli að stofnun nýs flokks, Sósíalistaflokksins, til að hætt sé að tala um viðskilnað hans við Fréttatímann og starfsfólkið þar.“
Þetta segir Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra á vefsíðu sinni og vísar þar til brotthvarfs Gunnar Smára frá Fréttatímanum sem vakti mikla athygli í lok síðustu viku þar sem starfsfólk Fréttatímans vandaði ritstjóranum og útgefandanum fyrrverandi ekki kveðjurnar. Sagði Gunnar Smári að stærstu lánardrottnar félagsins hafi viljað freista þess að treysta áframhaldandi rekstur blaðsins í lok síðustu viku og óskuðu þess að hann léti af störfum, sem hann gerði:
Ég gat því ekki greint starfsfólkinu frá stöðu fyrirtækisins. Ég hafði enga stöðu til þess, þekkti ekki atburðarásina og kunni engin svör. Og ekki vildi ég auka óvissu þess með því að blanda minni persónulegu stöðu inn í hana. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var á vinnustaðnum og gat upplýst fólk um gang viðræðna, fjárhagsstöðu og annað,
sagði Gunnar Smári á föstudag. Svo á miðnætti í fyrrinótt tilkynnti Gunnar Smári svo um stofnun Sósíalistaflokks Íslands 1.maí næstkomandi. Upp úr því biðlaði Oddný Harðardóttir þingmaður og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar til forsvarsmanna Sósíalistaflokksins um að styrkja Samfylkinguna í stað þess að stofna nýjan flokk. Gunnar Smári sagði Samfylkinguna hafa valdið að stórkostlegum skaða og sé mesta eyðingarafl vinstursins. Þegar þetta er skrifað nú hálfum sólarhring síðar er skráning enn opin í Sósíalistaflokkinn.
Blekkingarleikur
Björn segir að Gunnar Smári njóti sérstaks velvilja hóps álitsgjafa sem láti eins og taka beri boðskap Gunnars Smára á þann veg að hann eigi sérstakt erindi við þjóðina, það sé fyrst og síðast til þess eins fallið að gengisfella álit manna á þeim eru til þess búnir að ganga erinda Gunnars Smára eða leggja málstað hans lið. Segir Björn að Gunnar Smári hafi staðið fyrir blekkingarleik á stofnunarhátíð Frjálsrar fjölmiðlunar sem hann bauð til í Háskólabíói laugardaginn 11. mars:
Aldrei var einu sinni birt mynd af samkomunni en sagt að safnast hefðu 10,5 m. kr. og 800 manns skráð sig sem stofnfélaga í Frjálsri fjölmiðlun,
segir Björn. Vitnar hann svo í frétt í Fréttatímanum sem birtist 10.mars þar sem nefndur til sögunnar hópur fólks sem tekið hefði að sér að sitja í fulltrúaráði Frjálsrar fjölmiðlunar, samtaka til stuðnings óháðri og frjálsri blaðamennsku, sagði Gunnar Smári þá:
„Ráðið samanstendur af miklu heiðursfólki sem hefur látið margt gott af sér leiða, bæði störfum sínum og ekki síður með borgaralegri þátttöku sinni. Á laugardaginn mun ráðið og stjórn Frjálsrar fjölmiðlunar taka við boltanum og byggja upp þessi samtök. Við á Fréttatímanum munum snúa okkur að því að gefa út betra blað.“
Björn segir ekkert að marka þessa yfirlýsingu:
Hann yfirgaf sökkvandi skip með stórundarlegum yfirlýsingum og talar nú aðeins um stofnun nýs stjórnmálaflokks, Sósíalistaflokks.
Björn birtir svo nafnalistann úr Fréttatímanum frá 10. mars:
„Andri Snær Magnason rithöfundur, Anna Wojtynska mannfræðingur, Arnbjörg María Danielsen leikstjóri, Benedikt Erlingsson leikstjóri, Benjamin Julian aktivisti, Dominique Plédel Jónsson matarpólitíkus, Elísabet Rónaldsdóttir klippari, Guðrún Hallgrímsdóttir jarðfræðingur, Héðinn Unnsteinsson stjórnsýslufræðingur, Hrannar Jónsson formaður Geðhjálpar, Hulda Hákon myndlistarkona, Joanna Marcinkowska verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi, Katrín Oddsdóttir lögmaður, Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri, Kristín Eiríksdóttir skáld, Kristinn Sigmundsson söngvari, Lára Jónasdóttir verkefnastjóri hjá Læknum án landamæra, Lea María Lemarquis aktivisti, Margrét Örnólfsdóttir rithöfundur, Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur, Mikael Torfason rithöfundur, Mörður Árnason íslenskufræðingur, Ólafur Ingólfsson prófessor í jarðfræði, Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, Ragnar Kjartansson myndlistarmaður, Róbert H. Haraldsson prófessor í heimspeki, Róbert Marshall blaðamaður, Sigríður Eyþórsdóttir iðjuþjálfi, Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður, Sigurjón Magnús Egilsson blaðamaður, Sjöfn Ingólfsdóttir fyrrum formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, Stefán Jón Hafstein blaðamaður, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona og ritstjóri, Sverrir Jakobsson prófessor í sagnfræði, Tolli myndlistarmaður, Torfi H. Tulinius prófessor í miðaldafræðum, Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri.“
Hvergi hefur sést vísað til þess opinberlega að þetta fólk eða fulltrúar þess hafi látið að sér kveða við lausn erfiðleikanna sem steðja að Fréttatímanum og starfsfólki hans. „Heiðursfólkið“ hans Gunnars Smára hefur ef til vill ákveðið að snúa sér að stofnun Sósíalistaflokksins undir forystu hans?