fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Eyjan

„Bara eins og barnaklám“: Samtölin sem leiddu til haturskærunnar á hendur Pétri á Útvarpi Sögu

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 11. apríl 2017 19:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pétur Gunnlaugsson útvarpsmaður og þáttastjórnandi á Útvarpi Sögu.

Eins og Eyjan greindi frá í gær þá var Pétur Gunnlaugsson þáttastjórnandi á Útvarpi Sögu sýknaður í Héraðsdómi Reyjavíkur í gær. Þar sat hann á sakamannabekk, ákærður af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs.

Málið var tilkomið vegna kæru frá Samtökunum 78. Pétri var gefið að sök að hafa látið ákveðin ummæli falla og um leið sent orðræðu viðmælenda sinna í beinni útsendingu í þætti sem hann stjórnaði á Útvarpi Sögu. Ákæruvaldið taldi eins og segir í dómsorðum að þessi ummæli fælu í sér „háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar eða kynvitundnar þeirra.“

Í 233. gr. a almennra hegningarlaga segir að hver sem opinberlega hæðist að, rógber eða smánar eða ógnar mannorði eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Dómurinn í máli Péturs hefur nú verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur. Samtölin sem urðu tilefni ákærunnar áttu sér stað 20. apríl 2015. Þar hringdu hlustendur Útvarps Sögu í símatíma stöðvarinnar og tjáðu sig um skoðanir sínar á því að fræðsla um samkynhneigð ætti að fara fram í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Málið snerist um tillögu sem lögð var fyrir fund bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 15. apríl 2015. Í henni segir meðal annars: „[…].að farið verði í átak í eflingu hinseginfræðslu og -ráðgjafar í gunnskólum Hafnarfjarðar. Hafnarfjarðarbær leitist við að gera samstarfssamning við Samtökin 78 um þróun námsefnis fyrir öll stig grunnskóla, frá 1 til 10 bekkjar og sérfræðingar Samtakanna haldi námsskeið fyrir alla starfsmenn grunnskóla Hafnarfjarðar. Nemendum í unglingadeildum grunnskóla verði sömuleiðis gert kleift að sækja einstaklingsráðgjöf hjá sérfræðingum Samtakanna án endurgjalds.“

 

Útskrift af samtölum Péturs við þá einstaklinga sem hringdu inn á Útvarp Sögu:

  1. samtal:

[Hlustandi]: Þetta er núna bara eins og barnaklám eða eitthvað mundi maður segja.

[Pétur]: Já hvernig er þetta, er ekki barnaklám bannað, eða hvernig er það?

[Hlustandi]: Jú ég hélt það.

[Pétur]: Já, já hélt það.

[Hlustandi]: Hélt að börnin væru bara núna að læra bara.

[Pétur]: Þetta er náttúrlega.

[Hlustandi]: Til dæmis þegar foreldrar þeirra eru einstæðir foreldrar og ýmislegt.

[Pétur]: Halldóra

[Hlustandi]: Og þau geta ekkert spáð í venjuleg lífi.

[Pétur]: Halldóra er þetta ekki bara galið, eigum við ekki bara að segja það hreint út.

[Hlustandi]: Þetta er ógeðslegt sko

[Pétur]: Já.

 

  1. samtal

[Hlustandi]: Ég er að hringja út af þessu blessaða máli eða bölvaða máli, í sambandi við samkynhneigða.

[Pétur]: Já

[Hlustandi]: Að það skuli ley.. að það eigi að ley, að það hérna að kenna þetta í skólum.

[Pétur]: Já, grunnskólum.

[Hlustandi]: Já.

[Pétur]: Já.

[Hlustandi]: Ætla þeir að sýna hvernig þeir eðla sig ég ætla nú bara að vera dónaleg.

[Pétur]: Ég veit það ekki ég hef bara ekki hugmynd um það.

[Hlustandi]: Ég mundi bara spyrja þessa nítján ára stelpu hvort hún ætlar að gera það.

[Pétur]: Hmm ég hugsa að sumir hugsi þannig að það sé bara allt í lagi, hjá þessu fólki.

[Hlustandi]: Mér finnst að hún ætti bara að sýna hvernig hún og sín hennar lesbía myndu eðla sig fyrir framan börnin.

[Pétur]: Hm

[Hlustandi]: Held ég að hljóti að vera.

[Pétur]: En það er auðvitað verið að særa blygðunarkennd svona ungra barna ég skilabara ekki af hverju nokkrum.

[Hlustandi]: Auðvitað.

[Pétur]: Dettur þér í hug þetta er bara refsivert athæfi í raun og veru.

[Hlustandi]: Þetta ef þessi nítján ára stúlka er búin að koma þessu upp að þá á bara að tala við hana af lögreglu.

 

[…]

 

[Hlustandi]: Ég veit um það en ég bara segi, eða skilaboð til þessarar stelpu eru þau.

[Pétur]: Hmm.

[Hlustandi]: Ætlar hún að sýna hvernig lessur eðla sig?

[Pétur]: Hmm

[Hlustandi]: Þó ég sé dónaleg, ég veit það en þetta er það sem hún ætlar að kenna þeim og þá verður hún að sýna þeim það.

[Pétur]: Já.

[Hlustandi]: Og mundi nokkur leyfa henni að fara að þukla á börnunum. Ég segi bara það, ég er ekki lesbía, ég á átta börn og hef aldrei verið lesbía.

[Pétur]: Það er þannig að það er ekki endilega fólk sem er samkynhneigt eða konur sem eru lesbíur sem eru að mæla með þessu þetta er bara gagnkynhneigt fólk sem er að vilja að börnin fái þessa svo kölluðu fræðslu það er það sem er að gerast í málinu.

 

  1. samtal

[Hlustandi]: Mér finnst bara orðið hræðilegt hvað það getur verið að reyna að koma inn ekki að það eigi ekki að trúa á guð og jesú.

[Pétur]: Af hverju eru menn svona áhugasamir um svona hluti, ég skil það ekki, kynf, hinsegin fræðslu svo kallaða í Hafnarfirði og svona ýmisslegt, ég átta mig ekki á því að , að , að það kemur ekki fram nein, nein skýr greinargerð og rökstuðningur, eða að minnsta kosti ekki skýr rökstuðningur, fyrir svona hugmyndum, er það?

[Hlustandi]: Mér finnst nefnilega að, ég hélt að það ætti ekki að kenna krökkum eða fólki svona.

Pétur Gunnlaugsson lögmaður. Mynd/DV

[Pétur]: Nei, ég meina 6 ára gömul börn, ég meina.

[Hlustandi]: Já.

[Pétur]: Þetta er bara óhuggulegt.

[Hlustandi]: Það verður bara að vera sýnikennsla.

[Pétur]: Já þetta er óhuggulegt að hugsa til þess.

[Hlustandi]: Ha.

[Pétur]: Hvað, það á ekki að vera kenna þetta í grunnskóla.

[Hlustandi]: Ég á nefnilega

[Pétur]: 6 ára, 8 ára eða 10 ára, það breytir engu.

[Hlustandi]: Ég á tvö ömmu börn í skóla í Hafnarfirði.

[Pétur]: Jájá.

[Hlustandi]: Mér líst ekki á þetta.

[Pétur]: Já þau verða kannski bara að hætta í skólanum.

[Hlustandi]: Ég veit það ekki, ég hef náttúrulega ekki talað við mömmu þeirra út af þessu.

[Pétur]: Þú átt að gera það.

[Hlustandi]: Já.

 

  1. samtal

[Hlustandi]: Ég er algjörlega á móti þessu, þetta er algjör, þetta er bara orðið, er bara orðin della sko.

[Pétur]: Já.

[Hlustandi]: Og ég held að þeir séu að skemma rosalega mikið fyrir hinsegin dögum líka í leiðinni.

[Pétur]: Eeh já ja ég held.

[Hlustandi]: Og ég held að fólk verði mjög reitt.

[Pétur]: Já ég hugsa að það sé rétt hjá þér.

[Hlustandi]: Já, það verður mjög reitt og ég er allavegana einn af þeim.

[Pétur]: Já ég meina nú er bara góð sátt um þessi mál og allt í lagi en af hverju að, þetta gæti verið, orðið til þess að efna til óvinfagnaðar ég meina fólk verður já pirrað á þessu og finnst rangt að þurfa að senda börnin sín í skóla og það er skólaskylda.

[Hlustandi]: Já.

[Pétur]: Og síðan allt í einu kemur þessi fræðsla og bara, þetta eru, þetta eru..

[Hlustandi]: Það er..

[Pétur]: Lítil börn, ég meina hvar, hvar er þetta fólk statt eiginlega?

[Hlustandi]: Það er bara ekkert bara það X.

[Pétur]: Hvað segja barnaverndaryfirvöld?

[Hlustandi]: Jájá.

[Pétur]: Ha.

[Hlustandi]: Já þau sjálfsagt steinþegja.

[Pétur]: Já þau eru sjálfsagt ætli þau séu ekki hlynnt þessu það væri, það væri eftir öðru ha.

 

Pétur sagðist saklaus af ákæru

Pétur Gunnlaugsson neitaði sök alfarið fyrir dómi. Í dómsorðum segir meðal annars um framburð hans:

Pétur á Útvarpi Sögu.

Hann [Pétur] kvað útvarpsstjórann hafa fengið kvartanir eftir þáttinn sem um ræðir. Strax hafi verið brugðist við og næsta dag hafi einstaklingur sem kvartaði fengið að koma í síðdegisþátt til að ræða þessi mál. Þá hafi hinsegin fólk auglýst símatíma nokkrum dögum síðar svo unnt væri að láta í ljós skoðanir vegna umræðunnar sem átti sér stað. Ákærði kvaðst líta svo á að það væri skylda útvarpsstöðvarinnar að sjá til þess að allar skoðanir kæmu í ljós og það hafi verið gert á […]. Hann kvað umræðuna í þættinum ekki endurspegla sínar skoðanir. Þó að ákærði játi og hummi í samskiptum sínum við hlustendur, eins og til dæmis í fyrsta símtalinu sem lýst er í ákærunni, þýði það ekki að ákærði sé sammála hlustendum. Hann kunni til dæmis að vera að fylgjast með því hvort hlustandinn sé enn á línunni. Hann var spurður um einstök atriði sem fram koma í sumum samtalanna og tók ákærði fram að samtölin hefðu ekkert með skoðanir sínar að gera. Þá lýsti hann vangaveltum í samtölunum um hinsegin kennsluna í Hafnarfirði og hafi umræða mjög markast af því að hlustendur hafi ekki vitað hvað í henni fælist. Ákærði skýrði einstök umæli í símtölunum og hvernig umræðan þróaðist milli hans og viðmælanda og skýrði með hliðsjón af tilefninu. Ákærði kvaðst ekki telja samtölin fjögur fela í sér háð eða smánun í garð hinsegin fólks af sinni hálfu. Ákærði tók fram að hann hefði átt sæti í stjórnlagaráði þar sem hann studdi tillögu um réttindi samkynhneigðra einstaklinga. Spurður um það hvort umræðan sem í ákæru greinir hafi verið nauðsynleg þjóðfélagsumræða kvaðst ákærði telja að nauðsynlegt væri að fólk hefði rétt á því að tjá sig um skólamál sem væru umdeild og skýrði hann það álit sitt nánar. Þá hafi umræðan verið nauðsynleg þótt hann tæki ekki undir margt af því sem viðmælendur hans sögðu.

 

Dómur fjallar um tjáningarfrelsið

Í dómsorðum er fjallað um mikilvægi tjáningarfrelsisins en það er varið í stjórnarskrá. Þar segir m. a.:

Þótt tjáningarfrelsinu megi setja skorður með lögum eins og lýst er í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar er tjáningarfrelsi, opinber umræða og frjáls skoðanaskipti ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags. Opinber umræða um hvað eina í lýðræðisþjóðfélagi hefur iðulega í för með sér ýmiss konar óþægindi fyrir einstaklinga og/eða hópa fólks. Fólk móðgast, hneykslast eða reiðist, telur á sig hallað, telur á sér brotið og svo framvegis. Þetta er óhjákvæmilegur fylgifiskur opinberrar umræðu í lýðræðisþjóðfélagi. Hin tilvitnuðu ummæli samkvæmt ákæru kunna að vera þessu marki brennd og hafa þessi áhrif en grundvallarrétturinn um tjáningarfrelsi sem tryggður er í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu tryggir ákærða og viðmælendum hans réttinn til að tjá sig eins og þeir gerðu. Eins og rakið var ber að túlka 233. gr. a almennra hegningarlaga þröngt. Meta verður samtölin sem í ákæru greinir út frá tilefninu en þau voru í raun hluti af þjóðfélagsumræðu um málefni þar sem skoðanir voru skiptar. Þegar samtölin fjögur eru virt, hvert um sig, er það mat dómsins að ekkert í þeim, hvorki ummæli ákærða né að útvarpa ummælum hlustenda séu þess konar ummæli að virða beri þau sem brot gegn 233. gr. a almennra hegningarlaga.

Niðurstaða dómsins

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Það var mat dómsins að Pétur Gunnlaugsson hefði ekki brotið gegn 233. grein hegningarlaganna. Ásetningur hans í málinu var aukinheldur ósannaður.

Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða og dæma að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn 2.108.000 króna málsvarnarlaun Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun verjandans er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.

Það var Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari sem flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dómurinn í heild sinni á vef Héraðsdóms Reykjavíkur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bryndís sagði málþóf séríslenskt fyrirbæri og taldi rétt að beita 71. grein – Undirbýr nú 32. ræðu sína um veiðigjaldið

Bryndís sagði málþóf séríslenskt fyrirbæri og taldi rétt að beita 71. grein – Undirbýr nú 32. ræðu sína um veiðigjaldið
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“ 

Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“ 
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Uppáhalds afsökunin okkar

Nína Richter skrifar: Uppáhalds afsökunin okkar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun