
Miðflokkurinn lagði fram breytingatillögur um lækkun tryggingagjalds um 0.5% við tekjuöflunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar í dag, ásamt tillögum um afnám bókaskattsins svokallaða, sem og afnám virðisaukaskatts á áskriftargjöld fjölmiðla.
Lækkun tryggingagjaldsins er sett fram með vísan til samkomulags fyrrverandi ríkisstjórnar við Samtök atvinnulífsins 2016, þess efnis að lækka skyldi gjaldið í þremur jöfnum skrefum milli 2016 og 2018.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem hefur oft og ítrekað lofað lækkun tryggingagjalds sem ráðherra, kaus gegn tillögunni í dag og rökstuddi með því að ekkert skriflegt samkomulag við Samtök atvinnulífsins lægi fyrir um lækkun tryggingagjaldsins sem forsenda kjarasamninga. Því eru tveir framkvæmdastjórar Samtaka atvinnulífsins ósammála og vísa til munnlegs samkomulags sem hafi verið handsalað.
Í skriflegu svari við Eyjuna sagði Bjarni þetta um hvort hann væri að ganga á bak orða sinna um lækkun tryggingagjalds og samninga við Samtök atvinnulífsins:
„Tryggingagjaldið lækkaði um sumarið 2016 ekki satt? Um 0,5% til samræmis við það sem rætt var um. Áður hafði ég beitt mér fyrir lækkun upp á rúmlega 0,3%. Frekari lækkun verður að ráðast af framvindu á vinnumarkaði og af efnahagsmálum almennt. Um það er rætt í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Áherslan er á frekari lækkun sem haldist í hendur við aðrar ákvarðanir. Annars var ég fyrst og fremst að leiðrétta rangfærslur í greinargerð með tillögu í þinginu í dag þar sem sagt var að skriflegt samkomulag hefði verið gert. Það er rangt. Það hlaut ég að leiðrétta,“
sagði Bjarni. Hvort hann hafi svikið munnlegt loforð svaraði Bjarni til:
„Það var ekkert loforð, hvorki munnlegt né skriflegt um ákveðna lækkun né ákveðinn tíma í því sambandi. Hins vegar margítrekaðar yfirlýsingar um að það standi til að lækka tryggingagjald þegar aðstæður leyfa.“
Annar skilningur á málinu virðist ríkja hjá Samtökum atvinnulífsins, því bæði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdarstjóri SA og forveri hans Hannes G. Sigurðsson skrifuðu báðir greinar um málið þar sem þeir töluðu báðir um að samkomulag hefði verið gert, þó munnlegt væri.
Hér er eru ummæli Halldórs frá 13. maí síðastliðnum á vef SA:
„Í ársbyrjun 2016 gerðu SA og ASÍ kjarasamning um hækkun framlaga atvinnurekenda í lífeyrissjóði um 3,5% í þremur áföngum. Forsenda SA var að stjórnvöld lækkuðu tryggingagjaldið og byggði það á handsali við forystumenn þáverandi ríkisstjórnar um 1,5 % lækkun gjaldsins í þremur áföngum á árunum 2016-2018. Einungis fyrsti áfangi lækkunarinnar hefur komið til framkvæmda.“
Hér eru ummæli Hannesar í Morgunblaðinu síðan í desember 2016:
„Áður en kjarasamningarnir voru undirritaðir var handsalað samkomulag við stjórnvöld um að tryggingagjaldið myndi lækka um 0,5% um mitt ár 2016 og um sama hlutfall árin 2017 og 2018 að gefnum forsendum um lækkun skulda ríkisins. Þannig yrði gjaldið orðið svipað og það var fyrir efnahagshrunið 2008. Þetta handsal dugði SA til þess að ganga til samninga við ASÍ.“