
Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:
Þau tíðindi berast nú að hafin sé aðför í Háskóla Íslands að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor. Er tilefnið sagt vera að í stjórnmálafræðideild skólans sé notuð kennslubók þar sem kennsluhættir innihaldi „kvenfyrirlitningu, fitufordóma, kynþáttafordóma og niðurlægjandi orð um fatlaða“. Höfundur þessarar bókar mun vera Hannes prófessor. Í fréttum af málinu kemur fram að ummælin sem valda upphlaupinu sé að finna í kafla þar sem fjallað er um klámsölu og vændiskaup.
Ummælin eru sögð vera þessi:
„Vændiskaupendur eru margskonar. Ætti sú staðreynd, að þeir eru margir
ófrýnilegir karlskröggar, ekki að vekja samúð frekar en reiði? Hvert eiga þeir að
leita, sem geta ekki útvegað sér rekkjunaut á neinn annan hátt en að greiða fyrir
hann, til dæmis fólk sem á við fötlun, offitu eða aðra líkamsgalla að etja?“
Og einnig:
„Ef maður fær að skoða klámblað eða klámmyndir eða kaupa blíðu af konu í
vændishúsi, þá ættu líkur að minnka á því, að hann beiti örþrifaráðum eins og
nauðgun eða lostugu athæfi á almannafæri til þess að svala kynhvöt sinni.“
Mun þess meðal annars vera krafist að bókin sem um ræðir verði tekin úr
umferð sem kennslugagn, eins og komist er að orði.
Fáviska
Allir læsir menn ættu að greina ofstækið sem býr að baki þessari árás á
prófessorinn. Hann er aðeins að fjalla um þjóðfélagsmál sem eðlilegt er að
fjallað sé um í þessari kennslugrein. Hann er, eins og góðum fræðimanni sæmir,
að velta upp sjónarmiðum sem augljóslega skipta máli þegar um þau er fjallað.
Það er grafalvarlegt mál fyrir Háskóla Íslands að nemendur og að minnsta kosti
einn kennari (fyrrverandi?) við skólann skuli hafa uppi þennan málatilbúnað.
Tilgangurinn er sýnilega að vilja stjórna umræðuefnum í vísindum með því
hreinlega að banna umfjöllun um málefni sem tengjast þeirri bylgju rétttrúnaðar
og fávisku sem um þessar mundir flæðir yfir samfélag okkar. Þetta fólk krefst
þess meðal annars að bannið eigi að taka til vísindalegrar umfjöllunar, sem
einungis felur í sér ábendingar um augljós málsatriði sem tengjast því málefni
sem um er fjallað.
Það hefur orðið vaxandi vandamál í vestrænum háskólum að á síðari tímum hafa
komið upp háværar kröfur lýðskrumsins um að einungis megi fjalla í skólunum
um efni sem fellur að orðagjálfri rétttrúnaðarins í samfélaginu. Þetta eru viðhorf
fólks sem virðist ekki skilja þýðingu þess að fjallað sé um málin frá öllum
hliðum. Það vill banna orðræðu sem því líkar ekki. Nú er að vísu ekki auðvelt að
skilja hvað rétttrúnaðarsinnar hafa við ummæli prófessors Hannesar að athuga.
Ætli þar komi líka við sögu einhvers konar andúð á honum sem tengist
stjórnmálaskoðunum hans? Það skyldi þó ekki vera?
Akademískt frelsi
Það er afar þýðingarmikið að yfirstjórn Háskóla Íslands láti ekki þessa
lágkúrulegu árás á prófessorinn hafa önnur áhrif á sig en að strengja þess heit að
við skólann skuli ríkja akademískt frelsi. Til þess heyrir auðvitað rík virðing
fyrir tjáningarfrelsi háskólamanna. Ofstækismenn ættu að reyna að skilja að
aðferð tjáningarfrelsis, sem vestrænar þjóðir vilja halda í heiðri, snýst um að við
tökumst á með orðum í stað þess að banna skoðanir og tjáningu þeirra sem
kunna að segja eitthvað sem okkur geðjast ekki að. Þessi gildi ber Háskóla
Íslands að vernda af öllum kröftum.
Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.