
Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi VG í borgarstjórn og formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, vandar Sjálfstæðismönnum ekki jólakveðjurnar í pistli sínum á Vísi í dag. Hún gagnrýnir harðlega tillögur sjálfstæðismanna um lækkun fjárhagsaðstoðar, við afgreiðslu á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár. Tillagan var felld.
„Í stað þess að hækka hana upp í tæpar 189 þúsund krónur á mánuði vildu þeir að hún yrði lækkuð til ‘samræmis við meðalupphæð fjárhagsaðstoðar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu’. Slík samræming myndi fela í sér lækkun fjárhagsaðstoðar í um 160 þúsund krónur á mánuði eða lækkun um tæpar þrjátíu þúsund krónur á mánuði. Tillagan var vitaskuld felld, enda myndi núverandi meirihluti aldrei samþykkja að vega að þeim sem síst skyldi í samfélaginu og standa einna verst.“
segir Elín Ósk í pistlinum.
Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir Elínu misskilja tillögurnar:
„Tillögur okkar voru tvenns konar. Í fyrsta lagi að hafa fjárhagsaðstoð í grunninn það sama og gengur og gerist í sveitarfélögunum í kring, í öðru lagi að innleiða styrki til virkni sem yrðu greiddir til þess að hvetja fólk til virkni. Mun betra er að geta notað jákvæða hvata til að fá fólk til þátttöku í alls kyns verkefnum og því teljum við að þetta yrði kerfinu til góðs. Jákvæðir hvatar eru miklu árangursríkari en það kerfi sem til staðar er. Að halda því fram að við séum að vilja fólki illt með tillögunum er ekki rétt, heldur viljum við auka líkur á að fólk nái árangri og hvetja það áfram með ráðum og dáð,“
segir Áslaug. Hún er ósammála því að styrkjaleiðin myndi skapa óþarfa skriffinsku og vesen fyrir þá sem þyrftu á þeim að halda.
„Málið er einmitt að það er betra að fólk gleymist alls ekki á fjárhagsaðstoð heldur sé í stöðugri virkni og aðstoð við að ná árangri. Ef fólk glímir við þannig erfiðleika að það er jafnvel ekki fært um að vera á vinnumarkaði þarf að vinna með þeim að öðrum lausnum til að bæta þeirra lífsskilyrði. Við erum ekki að leggja þetta fram til að gera fólki lífið leitt heldur til að gleyma ekki fólki, hvetja það áfram og nýta tímann betur. Þetta er jákvæðari lausn og til þess fallin að ná betri útkomu fyrir þá sem þurfa að glíma við líf á fjárhagsaðstoð.“