

Ráðherrar síðustu ríkisstjórnar úthlutuðu rúmlega 17 milljónum af skúffufé sínu til ýmissa mála það sem af er þessu ári. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var gjafmildasti ráðherrann, en hún úthlutaði alls 3,3 milljónum króna. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigríður Á. Andersen og Jón Gunnarsson úthlutuðu engu skúffufé og rennur féð því aftur í ríkissjóð. Greint er frá þessu í helgarblaði DV.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var slitið kvöldið 14. september síðastliðinn. Áður en ríkisstjórninni var slitið höfðu ráðherrarnir samanlagt útdeilt rúmlega 8,5 milljónum króna. Nú þegar ríkisstjórnin hefur lokið störfum og ný tekin við kemur í ljós að ríkisstjórnin notaði alls 17,5 milljónir króna af skúffufénu, eða rúmlega 9 milljónum króna eftir að ríkisstjórninni var slitið. Björt Ólafsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra komst næst því að tæma skúffuna, munaði aðeins rétt rúmlega 10 þúsund krónum.