
Björn Bjarnason fjallar um hæfi tveggja ráðherra á heimasíðu sinni í dag. Hann gagnrýnir RÚV og fleiri „vinstrisinnaða“ miðla fyrir fréttaflutning af Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra og tengslum hans við Samherja, sem Björn gerir lítið úr. Hann virðist frekar hafa áhyggjur af hæfi Guðmundur I. Guðbrandssonar umhverfisráðherra, ef marka má þessi orð:
„Líklegt er að fleiri spurningar kunni að vakna um hæfi nýja umhverfisráðherrans til að taka afstöðu í álitamálum en nýja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans.“
Þá gagnrýnir Björn viðbrögð Landverndar við vanhæfisfréttum varðandi umhverfisráðherrann , en samtökin sendu frá sér yfirlýsingu þar sem fréttamenn RÚV voru skammaðir fyrir að tala um Landvernd sem hagsmunasamtök. Segir Björn yfirlýsinguna engu breyta um hæfi ráðherrans, þar sem umhverfisráðherra beri að „virða hæfisreglur stjórnsýslulaga.“
Um Kristján Þór og RÚV segir Björn þetta:
„…svífur sá andi í Efstaleiti að nauðsynlegt sé að hafa varann á sér gagnvart Kristjáni Þór þar sem hann hafi starfað sem stýrimaður hjá Samherja og setið í stjórn fyrirtækisins auk þess sem það hafi styrkt hann í stjórnmálabaráttunni. Í þessu tilliti er staða Kristjáns Þórs ekki önnur en margra annarra stjórnmálamanna sem hafa verið virkir í atvinnulífi þjóðarinnar og verða í störfum sínum að meta eigið hæfi til töku ákvarðana af tilliti til margra annarra þátta en þeirra sem snerta fyrri störf þeirra.“
Þá telur Björn að fjölmiðlar séu viljandi að skapa tortryggni í garð sjávarútvegsfyrirtækja:
„Ástæðan fyrir því að sótt er sérstaklega að Kristjáni Þór er ekki málefnaleg, þótt leitast sé við að færa málflutninginn í þann búning, heldur hluti af viðleitni til að skapa tortryggni í garð öflugra sjávarútvegsfyrirtækja. Hann er auk þess þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem gerir hann sjálfkrafa að bráð þeirra fjölmiðlamanna sem vilja veg flokksins sem minnstan.“