
Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, gaf út á dögunum bók er nefnist Hinir Ósnertanlegu, saga um auð, völd og spillingu. Þar er fjallað um viðskiptasögu Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og ítök föðurættar Bjarna í viðskiptalífinu í gegnum árin, sem höfundur kallar „eitrað samband stjórnmála og viðskipta.“
En af hverju réðst Karl í gerð þessarar bókar ?
„Eftir fall ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar í haust, í kjölfar Panamaskjalanna, barnaníðsmálsins og alls hins sem um hann hefur verið fjallað, fannst mér tímabært að teikna upp mynd af því hvernig hann og hans nánustu hafa hagað sér. Bókin byggist að mestu leyti á fréttum tengdum Bjarna og aðkomu hans að málum, sem mér þótti nauðsynlegt að tína til og halda til haga. Í öllu því fréttaáreiti sem fylgir okkar tímum hættir fólki til að gleyma því sem það las í gær eða fyrradag. Þarna er þessu safnað saman á einn afmarkaðan stað, sem er ekki síður tilgangurinn með samtímasagnfræði.“
Karl segir engar nýjar upplýsingar í bókinni, en þegar málin sem Bjarni hafi komið að séu skoðuð í heild sinni, renni hugsanlega upp ljós fyrir einhverjum.
„Þetta er aðallega upprifjun á þessari sögu. Við lesturinn uppgötvar maður hversu mikið hefur gleymst. Til dæmis er ég ekki viss um að margir undir fertugu muni eftir sölu ríkisins á SR mjöli, sem var í besta falli vafasöm. Þá er ég nokkuð viss um að ekki séu margir sem geti útskýrt út á hvað Vafningsmálið gekk út á, eða hlutverk Bjarna í því og hversu mikið hann skrökvaði um það mál.“
Karl Th. starfaði um tíma sem framkvæmdarstjóri Samfylkingarinnar og telst seint hlutlaus í pólitík. Óttast hann ekki að bókin verði dæmd sem dæmigerð árás vinstrimanns á Bjarna Benediktsson ?
„Það er nú langt síðan ég hef starfað innan Samfylkingarinnar, en jú, eflaust verður öllum tiltækum ráðum beitt til þess að grafa undan eða gera lítið úr bókinni. En það skiptir litlu, staðreyndirnar tala sínu máli.“
Eyjan birtir eftirfarandi kafla úr bókinni með góðfúslegu leyfi höfundar:
Hinn ósvífni
Við gætum bætt ýmsu fleiru við um pólitíska ósvífni Bjarna, loforð um þjóðaratkvæða-greiðslu um framhald viðræðna við Evrópu-sambandið, sem reyndist vera svokallaður pólitískur ómöguleiki, eða bara minnt á tvær skýrslur sem hann ákvað að birta ekki fyrr en eftir kosningarnar 2016 og stjórnarmyndun.
Önnur var einmitt um aflandsfélög og upplýsingaleynd af því tagi sem hann tók sjálfur þátt í í gegnum Falson, með hjálp lögmannsstofu í Panama. Hin skýrslan var um stærsta mál þarsíðustu ríkisstjórnar, tugmilljarða millifærslu úr ríkissjóði til hinna efnameiri í samfélaginu, en ekki til hinna eignalausu eða illa stöddu. Hina svokölluðu leiðréttingu.
Um hvort tveggja ákvað Bjarni Benediktsson markvisst og meðvitað að þegja þangað til löngu eftir kosningar. Af því að eðlileg vinnubrögð hefðu hugsanlega lagt stein í götu á leið hans til valda. Völdin skipta jú öllu máli.
Aðrir hafa tekið eftir því hvernig Bjarni raðar í kringum sig fólki í stöður og trúnaðarstörf á vegum hins opinbera, án þess að það virðist uppfylla lágmarkskröfur um þekkingu eða reynslu á viðkomandi sviði eða bara hafa nokkra reynslu af rekstri.
Bjarni Benediktsson fann ekki upp spillinguna í þessu efni – hann hefur fordæmin fyrir framan sig svo áratugum nemur – en viðmælendur mínir segja að hann gangi reglulega fram af mikilli hörku til þess að tryggja vinum sínum bitlinga.
Hér eru örfá dæmi og listinn gæti verið miklu, miklu lengri.
• Bjarni lét skipa Þórunni Guðmundsdóttur lögmann í stöðu formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands. Bjarni vann hjá henni á LEX lögmannsstofu um tíma, en hún var þar einn eigenda. Þórunn hefur enga sérþekkingu á málefnum seðlabanka, ekki menntun í þjóðhagfræði eða þekkingu á gjaldeyrismálum eða fjármálamörkuðum.
• Bjarni lét einnig skipa Sigurð Kára Kristjánsson, fyrrverandi alþingismann og fyrrverandi aðstoðarmann sinn, í stjórn Seðlabanka Íslands. Hann hefur ekki frekar en Þórunn neina sérþekkingu á málefnum sem heyra undir Seðlabanka Íslands. En hann starfaði um tíma með Bjarna og Þórunni á LEX.
• Bjarni skipaði Sigurð Kára einnig formann Viðlagatrygginga Íslands þar sem hann situr enn þegar þetta er skrifað. Þá var hann skipaður formaður nefndar sem á að gera úttekt á verkefnum Samgöngustofu. Ekki hefur ekki komið fram hvaða verkefni það ættu að vera. Ekki er heldur vitað um neina sérþekkingu Sigurðar Kára á sviði samgangna.
• Bjarni hefur skipað vin sinn og skólabróður Jónas Þór Guðmundsson lögmann til að gegna formennsku í kjararáði, sem hefur verið örlátt við alþingismenn og embættismenn í úrskurðum sínum, svo vægt sé til orða tekið.
• Jónas gegnir líka formennsku í stjórn Landsvirkjunar án þess að hafa neina reynslu af rekstri, hvað þá rekstri stórfyrirtækis á sviði orkuframleiðslu. Jónas hefur þó einnig verið formaður yfirkjörstjórnar í suðvesturkjördæmi.
• Þetta kann að virðast smotterí í stóra samhenginu, en annað skiptir þó alvörumáli. Bjarni skipaði Ástu Þórarinsdóttur, vinkonu sína úr Garðabæ, til þess að gegna formennsku í Fjármálaeftirlitinu. Á sama tíma var hún í umdeildum fjármálaumsvifum í Klínikinni í Ármúla, sem er líka í eigu annarrar góðrar konu úr Garðabæ, Ásdísar Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra þar. Varla þarf að rifja upp deilur um einkagróða og arðgreiðslur vegna þjónustu við veikt fólk. Áhugasamir geta til dæmis gúgglað skrif Kára Stefánssonar.
• Ásta tók við formennsku FME af Höllu Sigrúnu Hjartardóttur, sem Bjarni hafði líka skipað, eftir að Halla Sigrún varð að segja af sér vegna vafasamra viðskipta með hlutabréf í Skeljungi, þar sem hún græddi tæpan milljarð. Þetta var vel að merkja löngu eftir Hrun eða fyrir þremur árum. Þessi viðskipti átti hún í félagi við Einar Örn Ólafsson, sem var yfirmaður hjá Glitni þegar Bjarni átti sem mest viðskipti þar á viðkvæmum tíma í kringum Hrunið. Einar Örn Ólafsson hefur vistað framboðsfélag Bjarna Benediktssonar á heimili sínu að Einimel 18 í Reykjavík.
• Undarlegust er kannske skipun tengdaföður Bjarna, Baldvins Jónssonar, í stjórn Íslandsstofu. Baldvin situr núna í þeirri stjórn sem fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, þótt ekki sé kunnugt um neinn bakgrunn Baldvins á sviði mennta eða menningar. Hann er fyrst og fremst sölumaður og ekki alveg óumdeildur sem slíkur enda hefur hann árum saman stýrt hundruðamilljónaverkefnum á vegum ríkisins til að selja íslenzkar vörur í útlöndum, einkum landbúnaðarafurðir.
Svona mætti áfram telja um fjölmargt, sem nærstöddum þykir lýsa ófyrirleitni og ósvífni Bjarna Benediktssonar, en sem hann kemst þó furðu auðveldlega upp með eins og margt annað. Hrokinn er oft líka skammt undan, líkt og þegar hann heimtaði í ræðustól alþingis lyklana að stjórnarráðinu af Jóhönnu Sigurðardóttur vegna niðurstaðna í skoðanakönnunum:
Skilaðu lyklunum, Jóhanna.
Ég á þá. Við eigum stjórnarráðið. Ég er réttborinn til valda sem formaður Sjálfstæðisflokkins, lá í orðunum.
Og þegar hann missti út úr sér blákalt, að það væri beinlínis óeðlilegt ástand í landinu, ef Sjálfstæðisflokkurinn (hann) væri ekki í ríkisstjórn.
Bjarni Benediktsson er áreiðanlega ágæt manneskja eins og við erum flest.
Hann er hins vegar alinn upp í mjög tilteknum hugmyndaheimi, þeirra sem eiga meiri peninga en þeir geta nokkurn tíma notað og innan flokks þar sem einmitt sá mælikvarði er lagður öðrum fremur á fólk og líf þess. Þeir sem safna peningum – alveg óháð því hvernig það fé er til komið – eru með einhverjum hætti merkilegri en annað fólk.
Helzti talsmaður þessarar hugsunar á Íslandi er Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Nátengt þeirri hugmynd er að auðurinn, völdin og sagan geri suma betur til þess fallna en aðra að ráða sameiginlegum málefnum okkar. Og þess vegna þurfi að verja hagsmuni þeirra með öllum tiltækum ráðum, lagaboði, frekju og yfirgangi. Og um leið að verjast árásum þeirra sem Sveinn Benediktsson kallaði niðurrifsmenn á Siglufirði, sem berjast fyrir réttindum launafólks og hinna óvinnufæru.
Þessi yfirstétt – og þeir sem hafa hnusað sig í kringum hana – hefur litið á sig sem bonus pater, hinn góðviljaða ættföður, sem sé öðrum betur búinn til þess að ákveða hver fái hvað og hvernig af hinum sameiginlega auði þjóðarinnar.
Íslands-Bersi er fremur þekkilegt dæmi. Bogesen kaupmaður í Sölku Völku er mun raunsærra tilvik og miklu nær því sem allur almenningur þekkti á eigin skinni. Og þekkir enn. Það er maðurinn sem ræður örlögum þínum í skjóli valda, flokks og einkahagsmuna.
Bjarni Benediktsson er ekki bara holdgervingur þessa gamla málstaðar auðstéttar og sérhagsmuna. Hann er beinlínis gerður út af henni og til þess að verja hagsmuni hennar. Eins og dæmin sýna. Meiraðsegja um skötusel.
Hann er líka holdgervingur þeirra sem kostuðu samfélagið hundruð milljarða í Hruninu hér um árið. Að öðrum persónulegri og miklu sárari kostnaði ótöldum. Þessi litli leggur Engeyjarættarinnar er samt líklega hvorki verri né skárri en hinir braskararnir, sem eru flestir komnir aftur, hafa ekkert lært og engu gleymt. Sumir þeirra geta líklega stýrt verði á leigumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu og þar með á landinu öllu.
Munurinn á þeim og Bjarna er hins vegar sá, að hann hefur verið forsætisráðherra, finnst að hann eigi að vera það og sækist eftir endurnýjuðu umboði til þess. Munurinn er líka sá, að sumir hinna virðast kunna að skammast sín.
En þó bara sumir.