Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra segir að henni hafi verið hótað, slori hafi verið kastað á húsið sitt og að maður hafi eitt sinn komið upp að sér að sagt að hún væri réttdræp. Í viðtali við Stundina í dag segir Jóhanna einnig að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi formaður Framsóknarflokksins hafi verið mjög óbilgjarnir í stjórnarandstöðu í forsætisráðherratíð hennar á árunum 2009 til 2013:
Þetta var mjög heiftúðug stjórnarandstaða, mjög óbilgjörn. Bæði Bjarni og svo Sigmundur Davíð. Þetta var bara andstyggilegt, hvernig þeir létu. Þeir voru að stoppa öll mál og stunduðu algjört eyðileggingarstarf á Alþingi. Ég hef aldrei séð annað eins, hvorki fyrr né seinna, hvernig þeir létu,
segir Jóhanna. Reiðin var mikil í samfélaginu á þessum tíma eftir hrun og segist Jóhanna hafa orðið fyrir hótunum og í eitt skiptið hafi maður komið til hennar og sagt: „Þú ert réttdræp“:
Þetta var eitt af mörgum svona tilvikum. Síðan voru það svona hótanir sem ég fékk. Hérna uppi á tröppum var verið að kasta slori og eggjum með svona neikvæðum athugasemdum.