„Bjarni Benediktsson missti stjórn á skapi sínu á ritstjórn 365. Það er rétt um ári eftir að hann gerði það sama á sjónvarpsstöðinni Hringbraut,“ segir fjölmiðlamaðurinn Sigurjón M. Egilsson.
Sigurjón gerir þetta að umtalsefni í pistli á vef sínum í dag. Þar vísar hann í frétt DV.is frá því í gær þar sem greint var frá því að Bjarni hefði misst stjórn á skapi sínu á ritstjórnarskrifstofum 365 um helgina.
Bjarni er sagður hafa öskrað á Sunnu Sæmundsdóttur, fréttamann Stöðvar 2, vegna fréttar í hádegisfréttum Bylgjunnar á laugardag. Sunna hafði flutt frétt sem fjallaði um hvort Bjarni hafi mögulega gerst sekur um innherjaviðskipti þegar hann seldi eignir sínar í Sjóði 9 fyrir 50 milljónir króna nokkrum dögum fyrir bankahrunið. Kom fram að erfið staða Glitnis hafi verið rædd í efnahags- og skattanefnd Alþingis, sem Bjarni átti sæti í, en hið rétta er að staða Glitnis var ekki rædd í þeirri nefnd.
Eftir nokkur orðaskipti milli Bjarna og Sunnu er hann sagður hafa misst stjórn á skapi sínu og hróp hans borist um húsið. Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarkona Bjarna, þurfti að sögn vitna að draga Bjarna afsíðis til að róa hann niður.
Í færslu sinni segir Sigurjón að Bjarni hafi tjáð honum þá ákvörðun sína að hann ætlaði aldrei að tala við hann aftur. „Ástæðan? Fyrst sagði hann að ég hafi dreift óhróðri um sig og sína fjölskyldu sína. Þráspurður gat hann ekki bent á neitt máli sínu til stuðnings,“ segir Sigurjón sem heldur síðan áfram:
„Að endingu sagði hann að ég hafi sett „like“ á meðfylgjandi færslu á Facebook. Þrátt fyrir að rök hans hafi fallið fullkomlega áréttaði hann ákvörðun sína. Hann ætlar aldrei að tala við mig aftur,“
segir Sigurjón sem birtir síðan færsluna sem hann segir að Bjarna hafi mislíkað. Færslan var svohljóðandi:
„Engey er víða. Áður en neyðarlögin voru sett hringdi Sturla Pálsson, hagfræðingur í Seðlabankanum, í konu sína, Helgu Jónsdóttir, eins og fram kom í Kastljósi, og upplýsti um yfirvofandi aðgerðir bankans. Helga er dóttir Guðrúnar Sveinsdóttur, systur þeirra Einars og Benedikts Sveinssonar, stórtækra fjárfesta. Benedikt er faðir Bjarna, sem nú er fjármálaráðherra. Hann og Helga eru systkinabörn. Áður en neyðarlögin voru sett fengu Engeyingar því viðvörun og svigrúm til að bjarga sínu. Algjörir snillingar.“