Stuðlað verður að sveigjanlegri starfslokum á kjörtímabilinu, sagði Þorsteinn Víglundsson, ráðherra félagsmála, í viðtali við Óðin Jónsson á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann sagðist telja að á næstu 24 árum verði lífeyrisaldurinn kominn upp að sjötugu. Þjóðin sé að eldast hratt, sé betri til heilsunnar og geti starfað lengur. En þetta yrði gert í skrefum og Þorsteinn sagði að ríkið ætti að gefa gott fordæmi. Þess má geta fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, lýsti þeirri skoðun sinni í kosningabaráttunni að hækka ætti lífeyrisaldurinn í pistli á síðunni heimur.is
Málið hefur verið til umræðu víða í samfélaginu á undanförnum árum. Meðal annars var Kári Jónasson, fyrrverandi ritstjóri, í viðtali á lifdununa.is þarsem hann sagði að það væri fráleitt „að fólki sem hefur bæði þekkingu og reynslu sé kastað út af vinnumarkaðinum.“ En Kári settist á skólabekk þegar hann varð 67 ára og hóf nýjan starfsferil í framhaldinu í ferðaþjónustunni.
Þá varð fjörug umræða á fésbókarsíðu Björns Inga Hrafnssonar, ritstjóra, um málið eftir að hann skrifaði eftirfarandi status:
Við Íslendingar komum alls ekki nægilega vel fram við þá sem eldri eru og reynslumeiri. Víða erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, er reynslumikið fólk á sjötugs- og áttræðisaldri eftirsótt á vinnumarkaði, ekki síst í stjórnunarstöður. Hér dæmum við fólk með fulla starfsorku úr leik þegar það verður sjötugt, jafnvel yngra. Og til að bíta höfuðið af skömminni lækkaði frítekjumark eldri borgara um áramót niður í 25 þúsund á mánuði. Það þýðir að eldri borgarar mega nánast ekki hafa neinar aukatekjur þótt heilsan sé í góðu lagi. Þetta er hneyksli og þjóðarskömm. Við þurfum á öllu okkar besta fólki að halda — óháð aldri.
Börkur Gunnarsson tók saman.