„Ríkisfjármálaáætlun. Það er mjög mikilvægt verkefni. Endurspeglar stefnumótun ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Hún verður lögð fyrir þingið 1. apríl“ sagði Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, þegar hann var spurður hver væru fyrsti verkefnin sem hann færi í. „Svo er það að stíga síðustu skrefin í afnámi hafta og að hrinda málum í stjórnarsáttmálanum í framkvæmd.“ Benedikt var í viðtali á Hringbraut í gærkvöldi í þættinum Þjóðbraut.
Benedikt var spurður hvort þeir hefðu ekki gefið of mikið eftir í samningaviðræðunum þegar litið sé til þess að Björt framtíð hafi fengið framhaldslíf út á andstöðu sína við búvörusamningana og þeir í Viðreisn beinlínis verið stofnaðir út frá vilja til aðildarumsóknar í ESB en svo þegar stjórnarsáttmálinn sé lesinn er búið að þynna þessi mál ansi mikið út. Benedikt sagði: „það var vitað að ef við hefðum ætlað að ná þessum málum fram tiltölulega ómenguðum hefðu þeir flokkar sem héldu þeim á lofti þurft að fá meira fylgi í kosningunum.“
Benedikt hafnaði því að þetta stjórnarsamstarf sem nú er hafið hefði alltaf verið í kortunum. Hann sagðist hafa verið bjartsýnn í fyrstu viðræðunum, einnig bjartsýnn þegar viðræður um fimm flokka vinstri ríkisstjórn hófst en var svo hættur að vera jafn vongóður þegar þriðju viðræðurnar hófust. „Þetta var svona námskeið í væntingastjórnun.“
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, sagði að þetta stjórnarsamstarf hefði alltaf verið í kortunum og það væri öllum augljóst. Svandís var einnig í viðtali á Hringbraut stuttu seinna í þættinum.
Hún var spurð að því hvort hún væri ósátt við Bjarta framtíð og að sá flokkur hafi farið í þetta stjórnarsamstarf. „Það er ekki mitt að vera ósátt við Bjarta framtíð en ég er mjög hissa á þeim,“ sagði Svandís. Hún sagðist telja að margir kjósendur Bjartrar framtíðar hlyti að vera það líka. Hún sagðist þekkja nokkra sem voru hikandi um hvort þau ættu að kjósa VG eða BF og hafi ekki áttað sig á því að með því að kjósa BF hafi þau verið að kjósa yfir sig Engeyjarættina.
Börkur Gunnarsson tók saman