Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir samræðustjórnmál ekki hafa skilað árangri, þvert á móti hafi átakalaust þing verið misnotað af ráðamönnum. Birgitta hefur verið gagnrýnd víða á samfélagsmiðlum fyrir að vilja leggja fram vantraust á ríkisstjórnina um leið og þing kemur saman, hvatti hún Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og formann Bjartrar framtíðar til að gera slíkt hið sama og krefjast nýrra kosninga.
Í Fésbókarfærslu í dag segir Birgitta að hún muni að sjálfsögðu halda áfram að „styðja góð málefni og berjast gegn ólögum“:
Átakalaust þing og samræðustjórnmál hafa því miður ekki skilað tilætluðum árangri, það hefur með sanni verið misnotað af stjórnarherrum og allt of margir í samfélaginu eiga um sárt að binda vegna óstjórnar hérlendis síðan fyrir hrun og máttleysis í að berjast gegn slæmum stefnumálum. Ég hef engan áhuga á að vera einhver puntudúkka í pólitík og vona að engin hafi kosið mig til að vera þannig stjórnmálamaður,
segir Birgitta. Óskar hún þess að vinnubrögð á þingi væru betri, þingmenn hefðu meiri tíma til að vinna mikilvægar lagabreytingar og stundað yrði víðtækara samráð og samvinna á þingi:
Mér finnst þó afar dapurlegt hve allir eru tilbúnir að horfa framhjá því hvernig núverandi forsætisráðherra laug að þjóðinni rétt áður en hann tók við æðsta embætti stjórnsýslunnar, stakk skýrslu undir stól sem allir áttu rétt á að fá aðgang að um leið og hún var tilbúin og til að bæta gráu ofaná svart var dagsetningin útmáð. Mér finnst slíkt upphaf að nýrri stjórn ekki burðugt né sú meðvirkni sem hinir formennirnir sýndu af sér gagnvart þessu fúski.
Ég heiti andófi við slík vinnubrögð.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is