Á síðasta ári vann Byggðastofnun samantekt um dreifingu sauðfjár á Íslandi. Það var gert í framhaldi af nýjum búvörusamningum sem undirritaðir voru í febrúar 2016. Þar sem skapalón að þessari vinnu var til staðar hjá stofnuninni og blikur eru á lofti varðandi framtíð sauðfjárbúskaparins var ákveðið að kalla að nýju eftir gögnum frá Matvælastofnun og gera samanburð á haustásetningi ársins 2015 og 2016. Einnig þótti æskilegt að taka stöðuna eins og hún er þar sem að miklar breytingar á sauðfjárbúskap gætu átt sér stað á næstu misserum.
Ný skýrsla
Byggðastofnun hefur tekið saman nýja skýrslu um fjölda og dreifingu sauðfjár á Íslandi. Það er meðal annars gert í ljósi umræðunnar um gagngerar breytingar á sauðfjárhaldi í landinu á næstu misserum. Í skýrslunni er meðal annars gerður samanburður á haustásetningi ársins 2015 og 2016.
Sjá skýrsluna „Dreifing sauðfjár á Íslandi miðað við haustásetning 2016.“
Gögn um fjölda sauðfjár miðast við vetrarfóðraðar kindur samkvæmt haustskýrslum bænda og frístundabænda til Matvælastofnunar haustið 2016. Með fjölda vetrarfóðraðra kinda er hér átt við samtölu áa, hrúta, sauða, lambhrúta, geldinga og lambgimbra. Fjöldi sauðfjárbúa voru 2.422 og hafði fækkað um 76 frá fyrra ári. Sauðfé fjölgaði hins vegar lítillega á milli ára. Fjöldi ásettra kinda í landinu voru 471.728 en voru 470.678 haustið 2015. Fjölgunin milli ára var ríflega þúsund kindur eða 0,2%.
Stór atvinnuvegur á Vesturlandi
Vesturland hefur tekið saman gögn úr skýrslunni sem sýna fjölda búa af ýmsum stærðar flokki í hverju sveitarfélagi á útbreiðslusvæði blaðsins frá Kollafjarðarbotni í suðri, norður og vestur um að Reykhólasveit. Þessar tölur eru einnig lagðar saman og má skoða í meðfylgjandi töflum.
Þarna kemur margt áhugavert fram. Síðasta haust voru alls 83.436 hausar á þessu svæði. Þeir skiptust á 453 bú, bæði stór og smá. Fé á svæðinu fjölgaði um 1.758 eða 1,02 prósent milli áranna 2105 og 2016. Kort sem fylgir skýrslunni og sýnt er hér leiðir sömuleiðis í ljós að sauðfjárræktin er afar mikilvæg atvinnugrein víða á Vesturlandi. Súlurit eru sömuleiðis úr skýrslu Byggðastofnunar sem nálgast má á vef hennar (byggdastofnun.is).
Fjöldi sauðfjárbúa eftir stærð búa (vetrarfóðrað fé) og sveitarfélögum á dreifingasvæði blaðsins Vesturlands haustið 2016
Sveitarfélag | 1 – 199 | 200 – 399 | 400 – 599 | 600+ | Samtals |
Kjósarhreppur | 16 | 1 | 1 | 0 | 18 |
Akraneskaupstaður | 10 | 0 | 0 | 0 | 10 |
Skorradalshreppur | 3 | 3 | 0 | 0 | 6 |
Hvalfjarðarsveit | 31 | 4 | 5 | 2 | 42 |
Borgarbyggð | 124 | 32 | 20 | 8 | 184 |
Grundarfjörður | 16 | 2 | 0 | 0 | 18 |
Helgafellssveit | 12 | 1 | 1 | 0 | 14 |
Stykkishólmsbær | 22 | 0 | 0 | 0 | 22 |
Eyja- og Miklaholtshr. | 9 | 1 | 2 | 0 | 12 |
Snæfellsbær | 28 | 4 | 2 | 0 | 34 |
Dalabyggð | 41 | 16 | 19 | 17 | 93 |
Samtals | 312 | 64 | 50 | 27 | 453 |
Fjöldi sauðfjár (vetrarfóðrað) eftir stærð búa og sveitarfélögum á dreifingasvæði blaðsins Vesturlands haustið 2016
Sveitarfélag | 1 – 199 | 200 – 399 | 400 – 599 | 600+ | Samtals |
Kjósarhreppur | 983 | 310 | 527 | 0 | 1.820 |
Akraneskaupstaður | 257 | 0 | 0 | 0 | 257 |
Skorradalshreppur | 215 | 710 | 0 | 0 | 925 |
Hvalfjarðarsveit | 1.721 | 1.345 | 2.195 | 1.445 | 6.706 |
Borgarbyggð | 9.394 | 9.349 | 9.771 | 5.944 | 34.458 |
Grundarfjörður | 882 | 495 | 0 | 0 | 1.377 |
Helgafellssveit | 740 | 398 | 503 | 0 | 1.641 |
Stykkishólmsbær | 755 | 0 | 0 | 0 | 755 |
Eyja- og Miklaholtshr. | 729 | 313 | 1.070 | 0 | 2.112 |
Snæfellsbær | 1.148 | 1.094 | 993 | 0 | 3.235 |
Dalabyggð | 2.563 | 4.564 | 9.443 | 13.580 | 30.150 |
Samtals | 19.387 | 18.578 | 24.502 | 20.969 | 83.436 |
Birtist fyrst í landshlutablaðinu Vesturlandi: