Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-Grænna, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann sé að reyna að ná nauðasamningum við kröfuhafa um persónulegar skuldir sínar. Vonast hann til að niðurstaðan verði sú að hann muni greiða meirihluta skulda sinna og bjargi sér þannig frá gjaldþroti.
„Ég hef ekki farið í grafgötur með fjárhagsstöðu mína og sagði frá því á sínum tíma að ég hefði farið fram á gjaldþrotaskipti. Um langa hríð var ég praktíserandi alkóhólisti sem lét flest allt í lífinu reka á reiðanum, sérstaklega hvað fjármálin varðar. Því hafði safnast upp umtalsverð skattaskuld sem ljóst væri að ég mundi ekki geta ráðið við að greiða og fór því fram á gjaldþrot í fyrra,“ segir Kolbeinn í færslunni.
Þingmaðurinn segir að allt þetta ár hafi hann unnið í því að reyna að ná samningum og það hafi alltaf verið hans markmið að greiða skuldina.
Ég hef ekki viljað skjóta mér undan þessu og því hafa staðið yfir viðræður við kröfuhafa. Þær hafa skilað þeirri jákvæðu niðurstöðu að náðist saman um frumvarp um nauðasamning og í dag sendi skiptastjóri auglýsingu um það í Lögbirtingarblaðið.
Á næstu vikum kemur í ljós hvort þetta verði að veruleika, en eins og áður segir hafa viðræðurnar hingað til hafa verið jákvæðar. Samkvæmt frumvarpinu greiði ég meirihluta skulda minna og verð því ekki gjaldþrota.
sagði Kolbeinn og kvaðst vera mjög ánægður með þessi málalok, verði þau að veruleika.
Fyrir rúmi ári birti Kolbeinn yfirlýsingu þess efnis að í óefni væri komið og að hann stefndi í gjaldþrot. „Í upphafi þessa mánaðar lagði ég fram beiðni um gjaldþrotaskipti og í gær var hún tekin fyrir í héraðsdómi og skiptastjóri skipaður yfir búinu. Ég er á leið í gjaldþrot,“ sagði Kolbeinn um málið . Í frétt DV um málið síðasta sumar sagði Kolbeinn að upphæðin sem hann skuldaði væri rúmar 20 milljónir króna og þessa fjárhæð telur teldi hann sig ekki geta greitt upp. Honum, „eignalausum launamanninum“, eins og hann orðaði það myndi ekki endast ævin til þess. Í millitíðinni var Kolbeinn síðan kosinn á þing og hefur hagur hans því vænkast.
Í mars árið 2014 fór Kolbeinn í meðferð, eftir að hafa glímt við áfengisvandamál, en í kjölfar meðferðarinnar segist hann hafa fengið hjálp góðs fólks við tiltekt í lífi sínu. Þá segir hann að eitt af stóru verkefnunum sem hann hafi þá glímt við, hafi verið þessi uppsafnaða skuld sukkáranna. Um árabil skilaði hann ekki skattskýrslum, fékk á sig áætlanir og skuldirnar jukust jafnt og þétt.
„Og eins og sönnum alkóhólista sæmir lokaði ég alltaf augunum fyrir þessu, sérstaklega þegar upphæðirnar voru orðnar svo háar að ég missti raunveruleikasamband við þær – raunar var mitt raunveruleikasamband aldrei gott,“ segir hann og bætir við að honum hafi verið bent á það væri óvinnandi vegur fyrir hann að standa skil á sínum skuldum.
Mér var ráðlagt strax að gefast upp, þetta væri óvinnandi vegur. Ég vildi ekki hlaupast undan mínum skuldum, vildi taka ábyrgð gjörða minna, vildi standa mína plikt.
segir Kolbeinn og bætir því við að hann hafi eytt mörg hundruð þúsundum króna í að fá fagfólk til að vinna í málinu og til að fá stöðuna alveg á hreint.
„Ég fór sjálfur fram á gjaldþrot og stend sjálfur undir kostnaðinum við það,“ segir Kolbeinn. Þá segist Kolbeinn ætla að nýta sér reynsluna til að þroskast áfram og verða nýtur þjóðfélagsþegn.