Stjórn Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ástæða slitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Björt framtíð sendi fjölmiðlum nú rétt í þessu.
Eins og greint var frá í dag skrifaði Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, undir meðmælabréf sem mælti með því að Hjalti Sigurjón Hauksson fengi uppreist æru. Hjalti hafði fengið þungan dóm fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði í kjölfarið að hún hefði upplýst Bjarna um að faðir hans væri einn af meðmælendum. Í fréttum RÚV í dag kom fram að Sigríður hafi fengið þessar upplýsingar frá embættismönnum úr ráðuneytinu og hún hafi talið réttast að láta Bjarna vita.
Í frétt RÚV í kvöld kemur fram að stjórn Bjartrar framtíðar hafi komið saman í kvöld til að ræða stöðuna. Niðurstaða fundarins var sú að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Ríkisstjórnin hafði eins manns meirihluta áður, 32 þingmenn meirihlutans gegn 31 þingmanni minnihlutans.