Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er stórlaskaður og það er engin biðröð af formönnum annarra flokka sem vilja mynda með honum ríkisstjórn. Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri í samtali við Eyjuna nú í morgun. Honum rekur ekki minni í að sambærileg staða hafi komið upp áður í íslenskum stjórnmálum, að mál í kringum forsætisráðherra valdi stjórnarslitum. Varðandi hvað muni gerast nú segir Grétar Þór:
Það var mjög erfitt að mynda ríkisstjórn í fyrra. Og það er ekki auðveldara nú, vegna þess að það er minni eftirspurn eftir því að vinna með stærsta flokknum, Bjarna og félögum, heldur en var þá. Þannig að það er spurning hvort að þetta verði leyst með kosningum, annað hvort eins fljótt og hægt er eða í vor, með sveitarstjórnarkosningunum. Það er einn möguleiki, Svíar kjósa svoleiðis en við höfum hins vegar ekki hefð fyrir því,
segir Grétar. Ef boðað yrði til kosninga, líkt og er vilji þingflokks Viðreisnar, þá gæti Sjálfstæðisflokkurinn setið í minnihlutastjórn fram að kosningum:
Svo er auðvitað spurning hvort að menn finni eitthvert meirihlutamynstur sem liggur í spilunum. Formaður Viðreisnar er búinn að leggja til að það verði kosið, ég veit ekki hvort að það verði mjög hagstætt fyrir Viðreisn, ekki Bjarta framtíð heldur. Samfylkingin hefur sennilega áhuga á því að það verði kosið.
Á þessari stundu virðist sem að það verði boðað til kosninga fyrr en síðar segir Grétar:
Bjarni er auðvitað stórlaskaður eftir þetta, ekki flokkurinn endilega en þetta getur bitnað á flokknum. Ég held að menn standi ekki í biðröðum eftir samstarfi við forsætisráðherra. Það liggur held ég ekki í spilunum, ekki eftir þetta.