„Mér finnst einboðið að Alþingismenn standi í lappirnar. Skyldur manna er að reyna að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Ekki alltaf að hlaupast undan merkjum. Það er ekki alltaf einfalt og það er erfitt. Hlaupa svo til og kjósa. Af hverju heldur þú að menn vilji kjósa núna? Af því að menn halda að það sé lag að ná einhverju fylgi,“ sagði Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Brynjar átti þar á hvössum orðaskiptum við Sigmar Guðmundsson þáttastjórnanda og stóð fastur á sínu máli að engin leyndarhyggja hafi átt sér stað í kringum það að dæmdir barnaníðingar hafi fengið uppreista æru heldur hafi aðeins verið farið að lögum og stjórnsýslureglum.
Vandaði hann Viðreisn og Bjartri framtíð ekki kveðjurnar, sagði hann að ríkisstjórnin sé ekki að springa vegna meints trúnaðarbrests heldur öðrum hlutum:
Ég held að hún [ríkisstjórnin] sé að springa út af því að menn eru farnir á taugum yfir litlu fylgi í skoðanakönnunum, og miklum mótbyr. Menn fara alltaf á taugum. Það er bara vandamálið hjá sumum flokkum – að geta ekki staðið í lappirnar. Enda eru þetta oft ekki neinir flokkar, þetta er bara einhver hópur manna sem hefur ekkert bakland og hefur ekkert súbstans til að standa í þessu og fer bara á taugum,
segir Brynjar. Hann segir umræðuna hafa verið afvegaleidda og nú ætli Viðreisn og Björt framtíð að láta Sjálfstæðisflokkinn sitja með málið á fanginu:
Öll þessi umræða snýst um einhverja leyndarhyggju og eitthvað samsæri, það er ekkert svoleiðis í gangi og hefur aldrei verið. Menn eru að reyna að fara eftir eðlilegum stjórnsýslureglum og eðlilegum reglum um vernd persónuupplýsinga og málið er farið að snúast um eitthvað allt annað.