Óhætt er að fullyrða að tíðindi gærdagsins um tengsl föður Bjarna Benediktssonar við eitt af hinum afar umdeildu ærumálum hafi komið flestum í opna skjöldu og nánast sett þjóðfélagið á hliðina. Tíðindin bárust á þannig tíma að erfitt var fyrir dagblöð að bregðast hratt við enda helsta blaðaprentasmiðja landsins, Landsprent, sem er dótturfélag Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, farin að malla.
Það hefur þó vakið mikla athygli að þrátt fyrir að Fréttablaðið sé yfirleitt alltaf prentað á undan Morgunblaðinu þá tókst stjórnendum þar á bæ að breyta um forsíðu í miðjum klíðum þar sem tilkynnt var um stjórnarskiptin. Í morgun fékk því hluti lesenda blað þar sem tilkynnt var um stjórnarslitin á forsíðu en annar hluti fékk forsíðu þar sem greint var frá meðmælabréfi Benedikts Sveinssonar.
Viðbrögðin voru ekki jafnhröð hjá Morgunblaðinu sem þó er með prentsmiðjuna innan seilingar. Þar á bæ var minnst á fjárréttir, nýja markaði fyrir íslenskt lambakjöt og ólöglega dreifingu rafbóka á forsíðu blaðsins. Hin stóra pólitíska sprengja birtist aðeins á blaðsíðu sex í blaðinu.
Fyrrverandi blaðamaður Morgunblaðsins, Lára Halla Sigurðardóttir, vakti athygli á þessari staðreynd á Facebook-síðu sinni en benti réttilega á að vefsíðan blaðsins, mbl.is, hefði sinnt fréttaflutningi af stakri prýði. Þá steig fram núverandi blaðamaður og fyrrverandi fréttastjóri á Morgunblaðinu, Sunna Ósk Logadóttir og hrósaði samkeppnisaðilanum fyrir viðbrögðin.
Þá greip Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri viðskiptahluta Morgunblaðsins til varna og var greinilega ekki ánægður með innlegg samstarfsmannsins.
Það er augljóst að prentun Fréttablaðsins hefur verið seinkað vel fram yfir miðnætti, líkast til hefur það ekki farið í prentun fyrr en eftir kl 01:00 um nóttina. Ákvörðun um það hefur verið tekin vegna upplýsinga um að stjórnin héngi á bláþræði. Ef það er einhver sem efast um að þetta mál hefði verið á forsíðu Moggans, hefðu blaðamenn þess haft veður af því í kringum þann tíma þegar blaðið fór í prentun þá er sá hinn sami að halda því fram að á Morgunblaðinu séu stunduð léleg vinnubrögð í blaðamennsku. Það er auðvitað ekki raunin og það ættuð þið að vita.
Sunna Ósk lét ekki slá sig út af laginu og spurði Stefán Einar hvort að hann hefði staðfestar upplýsingar þess efnis að Fréttablaðið hafi haft þessar upplýsingar eða hvort að þetta væri gaspur í Stefáni Einar.
Þá fauk greinilega í ritstjórann sem svaraði í þjósti:
Ja nú skalt þú meta það fyrir þig sjálfa hvort ég hafi haldið þessu fram á grundvelli getgáta eða „hard facts“ sem er fyrirbæri sem skiptir máli í blaðamennsku. Ég kaus alltént ekki að ryðjast fram á ritvöllinn í gagnrýni á kollega mína fyrr en ég hafði kannað málið – vona að mér verði virt það til vorkunnar.
Sunnu var greinilega skemmt yfir viðbrögðum Stefáns Einars og sagði hann kostulegan í orðavali. „Þú hlýtur að hafa nóg annað að gera Stefán en að taka þetta svona nærri þér. Ég hrósa Fréttablaðinu fyrir sína forsíðu. Stend við það,“ sagði Sunna Ósk og bætti síðan við að hún hlyti að mega gagnrýna vinnustað sinn.
Það er yfirleitt smekklegra að gera það beint við fólk en að gaspra um hluti opinberlega sem maður hefur ekki kynnt sér. Þér hefði verið í lófa lagið að kanna hvernig þetta bar að á ritstjórn Morgunblaðsins í gærkvöldi,
svaraði Stefán Einar.
Þess má geta að í sama þræði útskýrir Sunna Kristín Hilmarsdóttir, sem var á kvöldvakt Fréttablaðsins í gær, að prentun blaðsins hafi hafist á hefðbundnum tíma en að síðan hafi prentunin verið stöðvuð milli hálf eitt og eitt í um nóttina og breytt um forsíðu. Henni var síðan dreift samhliða eldri forsíðunni.