Fyrirhugaðar hækkanir á áfengis- og eldsneytisgjöldum eru aðeins yfirvarp fyrir hækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Þetta kemur fram á ályktun stjórnar Félags atvinnurekenda frá því í dag. Lýsir stjórnin yfir vonbrigðum með að engar breytingar séu fyrirhugaðar á tryggingagjaldi fyrirtækja, hækkunin eftir hrun hafi átt að vera tímabundin. Hins vegar er stjórnin ánægð með áætlaða samræmingu á virðisaukaskattsþrepum.
Stjórnin gagnrýnir fyrirhugaðar hækkanir á áfengisgjaldi og eldsneytisgjöldum harðlega:
FA lýsir skilningi á sjónarmiðum um að jafna gjöldin, en bendir á að það er ekki alltaf nauðsynlegt að jafna gjöld með því að hækka þau lægri. Það má líka lækka há gjöld eða jafnvel mætast á miðri leið. „Jöfnun“ af þessu tagi er aðeins yfirvarp fyrir hækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga,
segir í ályktuninni, þar segir jafnframt:
Skattlagning á áfengi á Íslandi er löngu komin út úr öllu korti. Stjórnmálamenn virðast líta svo á að kaupendur þessarar einu neysluvöru megi skattpína endalaust. Gríðarleg hækkun á gjöldum á léttvín er ekki í neinu samræmi við málflutning núverandi stjórnarflokka um hóflega skattheimtu. Stjórn FA hvetur Alþingi til að endurskoða þessi áform.