Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:
Hún Emma Rakel mín búin að glíma við veikindi síðastliðin tvö ár. Veikindin eru andleg og ýmislegt búið að ganga á. Ég er óþolandi með að ræða andleg veikindi og mun berjast að eilífu fyrir því að andleg veikindi sé tekin jafn alvarlega og önnur veikindi.
Að berjast með barninu sínu fyrir bata er ótrúlega flókið, erfitt og lýjandi en upp stöndum við þó reynslunni ríkari, sterkari og tilbúnari í það sem lífið hendir í okkur.
Ég tók saman hvað það hefur kostað að eiga veikt barn á Íslandi á mér brá þegar ég sá heildartöluna. Af því álagið er alls ekki nóg þegar barnið manns er veikt, það er frábært að vera líka með fjárhagsáhyggjur.
Kostnaður við veikindi Emmu Rakelar frá október 2015 til ágústmánaðar 2017
Herjólfur: Kostnaður við Herjólfsferðir milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar/Þorlákshafnar. Þegar skipið fer í Þorlákshöfn þurfum við að kaupa okkur klefa þar sem við erum báðar mjög sjóveikar og verðum að geta lagst fyrir. 77.685
Ernir: Kostnaður við flugferðir með flugfélaginu Ernir. Emma Rakel er haldin miklum ferðakvíða og því völdum við oftar flug en Herjólf þar sem það ferðalaga er styttra og óþægindin og vanlíðanin standa því skemur yfir sem er betra fyrir Emmu Rakel. 393.200
Strætó: Kostnaðurinn við að taka strætó úr Landeyjahöfn til Reykjavíkur þar sem Emma Rakel sækir meðferð. Við erum svo heppnar að eldri systir Emmu Rakelar sótti okkur yfirleitt alla leið í Landeyjahöfn eða foreldrar mínir komu með okkur í læknaferðir, þar af leiðandi er þessi kostnaður ekki eins mikill og hann hefði getað orðið. Hvað bensínkostnaður var mikill er ég ekki með á hreinu. 14.600
Meðferðir: Emma Rakel sótti fyrst meðferð á Domus Medica, síðan tóku við sálfræði og geðlæknaviðtöl hjá Sól, sálfræði og læknisþjónustu. Að endingu fór hún í sálfræðimeðferð á Litlu kvíðameðferðarstöðinni þar sem hún er enn í meðferð. Allar þessar stofnanir eru í Reykjavík. Inn í þessum kostnaði eru ekki heimsóknir á heilbrigðisstofnunina hér í Vestmannaeyjum en þær hafa verið nokkrar. 153.316
Lyf: Emma tekur lyf við kvíða á hverjum degi. Leitin af réttu lyfjunum var löng og þurfti að prófa margar lyfjategundir áður en sú rétta á árangursmesta fannst. Einnig tók hún um stund lyf til að að hjálpa henni að sofa ásamt bakflæðislyfjum því þegar hún nærðist lítið sem ekkert vegna veikinda sinna jókst bakflæðið. 85.443
Meðferð við andlegum veikundum barna á að vera gjaldfrí, þegar barnið þitt veikist átt þú að geta farið með það í meðferð án þess að borga krónu. Svo einfalt er þetta í mínum augum.
Okkar háu herrar státa sig af því að hér sé gott velferðarkerfi og hér sé jafn réttur fyrir alla. Því miður er þetta ekki mín reynsla og ég veit að ég er ekki ein. Ég á sem betur fer gott bakland sem tryggði það að Emma Rakel mín fékk sína meðferð, það eiga það ekki allir. Hvernig væri að fara að girða stig í brók og veita peningum inn í heilbrigðiskerfið okkar svo allir geti fengið bót meina sinna…….ekki bara ríka fólkið……..