„Vestfirðingar! Hvers vegna fer þessi prófessor með svona miklar rangfærslur varðandi Hvalárvirkjun. Hvers vegna leggjast fjölmiðlar svo lágt að gefa rangfærslum hans svo mikið vægi. Er það vegna þess að fólki á fjölmiðlum sem hefur yfirsýn fer fækkandi. Við skulum skora á prófessor Tómas að birta mynd af hverju gili, hverjum læk og vötnum sem hann fjallar yfirborðskennt um. Með örnefnum, gera nákvæma grein fyrir breytingum (jákvæðum sem neikvæðum) sem munu verða merkjanlegar og þá hvernig, sumar vetur vor og haust. Verði Hvalárvirkjun byggð. Þannig ættu prófessorar að vinna.“
Þetta segir Guðmundur Hagalín Guðmundsson sérfræðingur í tækniþjónustu hjá HS Orku um Tómas Guðbjartsson skurðlækni. Fyrirhuguð Hvalárvirkjun á Ströndum er umdeild, hreppsbúar skiptast í tvær fylkingar gagnvart fyrirhugaðri virkjun, annars vegar þeir sem vilja meina að virkjunin verði mikil akkur fyrir samfélagið á Ströndum á meðan aðrir telja að hreppurinn muni ekki græða neitt á virkjuninni. Tómas, sem er mikill áhugamaður um útivist, hefur sagt að Hvalárvirkjun verði umhverfisslys sem muni bitna á nátturunni á ýmsan hátt.
Guðmundur Hagalín ávarpar Vestfirðinga og segir þeim að kynna sér hvernig Tómas hefur talað um landlækni:
Hvað heldur þessi maður að hann sé? Hvað þátt eiga sjúkraflutningamenn, samlæknar og annað hjúkrunarfólk mikinn þátt í að bjarga lífi. Skildi Tómas birta myndir af sér ef honum verða á mistök. Varla miða við hvernig hann ávarpar landlækni. Allt fólk innan björgunarsveita, Landhelgisgæslu, slökkvi- og sjúkraflutningamenn eru að bjarga mannslífum. Innan spítalanna er fólk eilíft að bjarga lífi og sálarheill fólks alla daga án þess að hreykja sér á haug yfir verkum sínum,
segir Guðmundur. Hann segir Tómas tala um sig sem hetju fyrir að ganga með vistir sínar á bakinu um Vestfirði þegar það sé siður heimamanna:
„Að undanskildum oft á tíðum erfiðum skoðunarskiptum innansveitar sem verða til við verkefni eins og Hvalárvirkjun þá eru náttúruleg og sjónræn áhrif Hvalárvirkjunar lítt merkjanleg. Ætti það því að vera verkefni okkar allra (Tómasar líka ef hann er læknir) að haldast hönd í hönd með heimamönnum og styðja hvort annað í gegnum verkefnið þannig að báðir aðilar heima fyrir sem annarstaðar megi við una.“
Margir hafa tekið undir með Guðmundi, menn sem segja Tómas veruleikafirrtan og að hann ætti að vera skikkaður til að búa á þessum slóðum í nokkur ár áður en hann fái að tjá sig um málið.
Tómas svaraði svo Guðmundi, sagði hann orð hans rýr:
…og það af manni sem starfar fyrir HS Orku. Skil ekki hvernig hægt er að blanda Landlækni inn í umræðu um virkjanir. Held að hann hafi alveg nóg á sinni könnu. Æskilegt væri að menn ræddu málefni í stað þess að kasta skít,
sagði Tómas. Var honum tjáð að orðum hans um landlækni kæmu umræðunni við það sem þau sýndu hans innri mann, Tómas sagði það rugl:
Hvílíkt rugl. Þetta kallast að vera rökþrota. Svona umræða dæmir sig sjálf og er ykkar sjónarmiðum ekki til framdráttar.