„Stjórnarandstæðingar segja nýbirtan stjórnarsáttmála fremur froðukenndan og lítið hald að finna. Sáttmálinn er margorður og segir oftast fátt rétt eins og Dagur B. Eggertsson hefði gert uppkastið og lesið próförk,“ skrifar leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag. Höfundur fer háðuglegum orðum um flest það sem rætt er í stjórnarsáttmálanum. „Í upphafi stjórnarsáttmálans segir ríkisstjórnin „jafnvægi og framsýni vera leiðarstef“ hennar. Það er sjálfsagt ágætt, hvað sem það merkir. Það er aragrúi slíkra frasa í þessum sáttmála og mætti gefa hann út í mun styttri útgáfu.“ Þó tekur höfundur fram að eitt af því fáa sem hönd á festi í sáttmálanum sé loforð um að halda áfram tilburðum vinstri stjórnarinnar gegn íslensku stjórnarskránni.
„Stjórnarflokkarnir hafa verulegar áhyggjur af því hve innflytjendum fjölgar hægt á Íslandi“
Svo bendir hann á annað atriði sem honum finnst augljóst í sáttmálanum, „er að stjórnarflokkarnir hafa verulegar áhyggjur af því hve innflytjendum fjölgar hægt á Íslandi.“ Fer síðan í gegnum tillögur stjórnarinnar að innflytjendamálum sem stefna allar að því að liðka um fyrir innflytjendum.
Jafnlaunavottun
Þá virðist leiðarahöfundur ekkert yfir sig hrifinn af stefnu ríkisstjórnarinnar í að minnka launamun kynjanna og jafnlaunavottuninni sem verður komið á hjá fyrirtækjum sem hafa 25 eða fleiri starfsmenn.
Eitt af því fáa sem ná má taki á í stjórnarsáttmálanum er eitt dularfyllsta mál í íslensku þjóðlífi. Hinn duldi kynbundni launamunur. Allir eru klárir á honum en enginn finnur hann fremur en gullskipið á sandinum sunnanlands. „Í því skyni að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis verði áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp árlega jafnlaunavottun.“ Ekki er annars staðar talað jafn beint til fyrirtækjanna í sáttmálanum. Væri ekki árangursríkara að heita háum skattfrjálsum verðlaunum, fyndi einhver loks „dulda kynbundna launamuninn?“
Börkur Gunnarsson tók saman.