„Kannski er það til marks um hversu góð tök Bjarni Benediktsson hefur á flokki sínum að hann kemst upp með að gera þetta svona,“ skrifar Egill Helgason um ráðherraskipan sjálfstæðismanna. Tillaga Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og verðandi forsætisráðherra, kom mörgum í opna skjöldu enda ekki tekið mikið tillit til þess hvernig mönnum vegnaði í prófkjörum flokksins né þess hversu stór kosningasigur listans var í hverju kjördæmi. Þannig eru oddvitar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og Norðvestur ekki með ráðherrastóla þótt þeir hafi unnið sigra í kjördæmum sínum en fólki sem er neðar á lista þeirra veittar vegtyllur. Til dæmis fær Unnur Brá Konráðsdóttir embætti forseta Alþingis en hún er áttundi þingmaður Suðurkjördæmis og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem er fjórði þingmaður í Norðvestur kjördæmi fær ráðherrastól. Enda studdi Páll Magnússon, oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, ekki ráðherraskipan formannsins einsog Eyjan.is sagði frá í morgun.
Jafnréttissjónarmið hafa verið nefnd til sögunnar þegar rætt er um ráðherraskipan Bjarna Benediktssonar en konur hafa á þessari öld oftast náð betri árangri í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins heldur en síðast. Aðeins ein kona var oddviti sjálfstæðismanna í síðustu kosningum og það var Ólöf Nordal í Reykjavík. En þá er litið til þess að í kjördæmi Bjarna, Suðvestur, þá velur hann annan karlmann á ráðherrastól með sér, Jón Gunnarsson, en lítur framhjá konunum á listanum þar.
Þá skrifar Egill:
Svo má spyrja hvort menningararfurinn verði fluttur aftur í menntamálaráðuneytið, en hann var færður í forsætisráðuneytið á tíma Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það eru áhöld um hvort Bjarni Benediktsson hafi áhuga á að sinna honum með sama hætti og Sigmundur.
Börkur Gunnarsson