fbpx
Sunnudagur 18.maí 2025
Eyjan

Framboðsmál Framsóknar í Reykjavík og Sjálfstæðisflokks á Suðurlandi

Egill Helgason
Fimmtudaginn 11. ágúst 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þá er kjördagur kominn á hreint, 29. október. Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnir það. Hann er forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins – en í raun er óvíst hvaða hlutverki hann mun gegna í kosningunum. En hann er altént efstur á framboðslista flokksins í Suðurkjördæmi.

Nú ber svo við að allir þingmenn Framsóknarflokksins í Reykjavík ætla að láta af þingmennsku nema Karl Garðarsson. Semsagt Vigdís Hauksdóttir, Frosti Sigurjónsson og Sigrún Magnúsdóttir.

Karl var í öðru sæti hjá flokknum í Reykjavík suður í síðustu kosningum en tilkynnti í dag að hann ætli að bjóða sig fram í fyrsta sætið í Reykjavík norður.

Í Reykjavík norður er að finna hið ógurlega hverfi 101 en líka Grafarvoginn.

En hví heldur Karl ekki áfram í suðurkjördæmi Reykjavíkur? Kann að vera að það sé til að rýma fyrir framboði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins?

Sigmundur var í síðustu kosningum þingmaður Norðausturkjördæmis en þar hefur undanfarið orðið vart mikillar óánægju með hann.

Karl var eitt sinn fréttastjóri á Stöð 2 og það var líka Páll Magnússon.

Nú er Páll kominn í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sækist eftir fyrsta sætinu á Suðurlandi. Páll er úr Vestmannaeyjum, sonur Magnúsar Magnússonar sem þar var bæjarstjóri eitt sinn og síðar alþingismaður og ráðherra fyrir Alþýðuflokkinn.

Á fleti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu eru Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Ásmundur Friðriksson.

Ragnheiður Elín kemur úr fjölmennasta byggðarlaginu, Reykjanesbæ. Hún hefur hins vegar átt í talsverðum erfiðleikum sem ráðherra, aðallega vegna gagnrýni á stjórn ferðamála. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ stendur líka heldur veikt um þessar mundir.

Unnur Brá Konráðsdóttir kemur úr Rangárþingi. Hún hefur getið sér orð fyrir frjálslynd viðhorf og beitti sér gegn öflum sem mætti kenna við þjóðernisíhald á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur til að bera talsvert pólitískt hugrekki.

Ólíkt henni, hefur Ásmundur Friðriksson, gælt við slíkar hugmyndir og gefið þeim mál á þingi. Ásmundur er upprunalega úr Vestmannaeyjum, en flutti síðar í Garðinn og var þar bæjarstjóri.

Sjálfstæðisflokkurinn nær í mesta lagi þremur þingsætum á Suðurlandi þannig að víst er að eitt þeirra nær ekki kjöri. En Páll Magnússon ætti að eiga góðan séns. Sjálfstæðisflokkurinn er geysilega sterkur í Vestmannaeyjum. Eyjamenn hafa ekki átt þingmann síðan Árni Johnsen hvarf af Alþingi. Árni ætlar reyndar í framboð aftur, en nær varla miklum árangri. Það gæti líka verið framundan hörð barátta um kvótakerfið – útgerðin í Vestmannaeyjum vill ábyggilega hafa sitt að segja um það. Páll hefur áður komið til varnar því og talaði þá um það sem „miðbæjarmeinloku“ að bara sægreifar nytu afraksturs auðlinda í sjónum, ekki íslensk alþýða.

Það er svo spurning hvernig það að hafa verið útvarpsstjóri hjá RÚV mælist fyrir í kjördæmi sem hallast mjög til hægri? Í síðustu kosningum náðu aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur aðeins tveimur þingmönnum á Suðurlandi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku
Lögregla rúin trausti
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Hinn gullni tími“ – Trump missir sig í Hvíta húsinu

„Hinn gullni tími“ – Trump missir sig í Hvíta húsinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“