
Ég benti á það í pistli fyrir helgina að það væri merkilegt að svo virtist að efnisatriðum aðgerða til að brjótast út út gjaldeyrishöftum hefði verið lekið í DV. Þetta er reyndar leikur sem hefur verið leikinn allan feril ríkisstjórnarinnar, það hefur verið stöðug togstreita innan hennar um haftamálin og þeirri aðferð hefur óspart verið beitt að leka í fjölmiðla.
Þess verður að gæta að stundum hafa lekarnir innihaldið misvísandi eða rangar upplýsingar – það hefur verið tilkynnt að nú væru aðgerðir alveg á næsta leiti – en ef marka má viðbrögðin við DV-lekanum mætti ætla að hann sé meira eða minna réttur.
Ég veit það að á Ríkisútvarpinu hafa menn verið mjög á varðbergi gagnvart þessum lekum. Ég man til dæmis eitt sinn að Kjarninn skensaði RÚV fyrir að vera eftir á með fréttir af haftamálum, en það reyndist síðar vera Kjarninn sem hljóp á eftir leka sem reyndist lítt ábyggilegur.
Annars er merkilegt að skoða ríkisstjórnir með tilliti til leka. Davíð Oddsson sagði á sínum tíma að ekki væri hægt að vinna með Alþýðuflokknum í stjórn vegna þess að þar læki allt út. Davíð sneri sér að Framsókn og Halldóri Ásgrímssyni. Ríkisstjórn þeirra sat næstum þrjú kjörtímabil og þar lak mjög lítið. Það var agi á hópnum.
Hins vegar lak talsvert mikið úr ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, það var náttúrlega mestanpart komið frá uppreisnarfólkinu innan VG sem síðan lét sig hverfa, að undanskildum Ögmundi.
Eins virðist það vera í núverandi stjórnarsamstarfi. Þar er lekum óspart beitt, og talsvert í því skyni að ná stöðu gagnvart samstarfsflokknum. Slíkt getur reynst ríkisstjórn erfitt. En svo er líka hitt að það er miklu erfiðara að halda hlutum leyndum en var á árum áður.