
Það er náttúrlega einungis í samfélögum sem eiga við býsna stór vandamál að stríða að ný stjórnmálaöfl geta snögglega sveiflast upp í þriðjungs fylgi.
Svona sjáum við í hinu kreppta Grikklandi, á Spáni hins mikla atvinnuleysis – og nú á Íslandi.
Í samfélögum þar sem ríkir stöðugleiki gerist ekkert svona. Það eru kosningar í vændum í Danmörku, þar er eitthvað smávegis fylgi að færast til. Óvíst er hvort vinstri- eða hægrivængurinn sigrar, en kjósendur vita að engu verður kollvarpað hvor sem sigurvegarinn er.
Hlutirnir munu ganga sinn vanagang áfram og það verður ekki öllu hent sem síðasta ríkisstjórn gerði – eða látið eins og það sé allt einskis virði og eigi heima í ruslinu.
Þannig eru lætin yfirleitt við stjórnarskipti á Íslandi. Allt er ómögulegt sem hinir gerðu og stór hluti kjörtímabilsins fer í að skammast út í þá.
Hér höfum við Pírata í 35 prósenta fylgi í skoðanakönnunum – þetta er nánast eins og hitamælir sem sýnir hversu illa er komið fyrir stjórnmálakerfinu.
En auðvitað er þess að gæta að fastafylgi Pírata er afar lítið. Það gætu verið áhugaverðir tímar framundan í stjórnmálunum. Kjarasamningarnir sem verið er að gera út um samfélagið eru nokkur sigur fyrir ríkisstjórnina – öðru verður varla trúað en að samningar við ríkisstarfsmenn sem eru í verkfalli séu á næsta leyti.
Og svo er það haftafrumvarpið mikla, einhverju af efni þess hefur verið lekið út á valda staði – reyndar aðallega til blaðamanns á DV sem virðist vera nálægt uppsprettu ekki langt frá forsætisráðherra – og þar eru nefndar stórar tölur um hverju eigi að ná út úr kröfuhöfum.
Betur að rétt reynist. Kröfuhafana á auðvitað að kreista eins og hægt er, svo fremi að það endi ekki í langvinnum málaferlum og veseni. Það er gríðarlegt hagsmunamál að losa um höftin og allir hljóta að vona að stjórnvöld séu að meta stöðuna rétt.
Og þarna er náttúrlega líka tækifæri fyrir ríkisstjórnina að spyrna sér upp af botninum, eins og þeir líklega vita mæta vel Sigmundur og Bjarni – sem annars hafa verið að togast á um þessi haftamál síðustu tvö árin í talsverðu ósamlyndi.