

Steingrímur Leifsson rekur ásamt bróður sínum Þorgrími eitt glæsilegasta fiskvinnslufyrirtæki landsins, Frostfisk. Það starfar í Ólafsvík, þar sem þeir eru upprunnir, og í Þorlákshöfn. Fyrirtækið leggur áherslu á gæðavöru, vinnur úr um 12 þúsund tonnum af fiski á ári en kaupir allan sinn fisk á markaði eða í beinum viðskiptum við báta.
Steingrímur er í fjarska athyglisverðu viðtali við vef sem nefnist kvotinn.is. Þar birtast viðhorf til fiskveiðistjórnunarkerfisins sem vert er að gefa gaum. Steingrímur er spurður um kvótasetningu makríls og segir að þar sé verið að „framleiða veðhæfni“:
Umræðan er svo fljót að setja allt í kvóta og aftur kvóta til að framleiða veðhæfni og styrkja efnahagsreikninga útgerðarfyrirtækja. Við höfum verið að hugsa þetta dálítið bræðurnir og teljum að ef það eigi að kvótasetja makrílinn sé það að sjálfsögðu vinnslan sem eigi að fá kvótann. Það eru fordæmi fyrir þessu í veiðum á hörpudiski. Þá báru vinnsluhúsin ábyrgð á kvótanum og veiddu bara það sem þau gátu selt og gerðu um það samninga við bátana.
Lykillinn í makrílvinnslu er að geta unnið hann, selt og fengið greitt fyrir hann. Þetta er mjög viðkvæmur fiskur sem skemmist eftir 20 til 40 tíma. Við höfum því sagt að ef ætti að gera þetta af viti, ætti vinnslan að fá kvótann og þá myndu markaðslögmálin ráða þar för. Að sjálfsögðu er vinnslan jafn hæf til þess að ráða yfir kvótanum og útgerðarmenn.
Steingrímur segir að þeir bræður séu hlynntir því að fara markaðsleið í þessu efni, en það virðist vera bannað hjá þeim sem ráða för:
En fyrir utan það erum við hlynntir því að fara markaðsleiðina í þessum efnum. Að smábátur bjóði til dæmis í þann afla sem hann ætlar sér að veiða, eða að við bjóðum í einhvern afla á kvótaþingi og semjum svo við smábátinn um það að hann veiði fyrir okkur. Svo væri settur upp annar pottur fyrir ísfiskskipin sem þá kepptu við sína líka um heimildir úr þeim potti á kvótaþingi. Þeir myndu þá leiga til sín það sem þeir treysta sér til og ætla að veiða. Þeir gætu þá betur skipulagt sig, gætu verið í allt að tvo eða þrjá mánuði á makríl. Svo væru frystitogararnir í sér potti og myndu á sama hátt leigja til sín það sem þeir vilja. Þjóðin fengi þá rétt verð fyrir fiskinn sinn og sjómennirnir rétt kaup og hafnirnar fengju gert upp miðað við rétt aflaverðmæti. Þetta má hins vegar ekki því ef þessi tilraun gengi vel í tvö til þrjú ár, væri komið fordæmi fyrir því að svona mætti gera við allan fisk. En það er náttúrulega algjörlega bannað af þeim sem ráða för.
Markaðsleiðin er alltaf best, segir Steingrímur ennfremur, og heiðarlegt samkeppnisumhverfi. Það séu markaðir út um allan heim og nóg af fólki til að kaupa fiskinn.
Við teljum að markaðsleiðin sé alltaf best og það að vinna í samkeppnisumhverfi sem sé bæði heiðarlegt og gott. Menn eiga bara að læra það að vinna og lifa á tekjum sínum. Það er mikið talað um nauðsynlegan fyrirsjáanleika. Flugfélög hafa ekki fyrirsjáanleika, en þau eru samt að fjárfesta fyrir milljarða. Þau lifa á þeirri auðlind sem er fólk sem er að kaupa sér flugmiða. Þau eru einfaldlega að lifa af tekjum sínum. Fyrirtæki gera það alls staðar í heiminum, í sjávarútvegi líka.
Það eru markaðir úti um allan heim. Það er nóg af fólki til að kaupa fiskinn, það er fyrirsjáanleikinn í sjávarútveginum. Fyrirsjáanleikinn er líka sá að við höfum heildarkvóta á Íslandi sem er af ákveðinni stærð og við ætlum að veiða hann. Það er bara deilt um það hver eigi að veiða hann. Það eru væntanlega hæfustu útgerðarmennirnir, hæfustu skipstjórarnir og sjómennirnir sem veiða fiskinn. Svo þurfum við að vera með góða fiskvinnslu á landi sem er samkeppnisfær, getur keypt fiskinn og selt hann og fengið hann greiddan á hæsta verði. Þetta er hið eðlilega viðskiptaumhverfi í öllum atvinnugreinum, hvort sem það er fiskvinnsla eða annað.
Steingrímur segir að það sé lenska á Íslandi að vilja ekki fara eftir eðlilegum samkeppnisreglum, kvótakerfið sé úrelt og ekki gangi upp að framlengja líf þess:
Því miður er það lenska á Íslandi að vilja ekki fara að eðlilegum samkeppnisreglum og að menn þori ekki að vera í beinni samkeppni við einhvern annan og vilji ekki að markaðslögmálin ráði. Ekki með nokkru móti.
Kvótakerfið hefur alla tíð verið úrelt og aldrei lotið neinum markaðslögmálum. Við erum búnir að vera í þessu kerfi í 31 ár og ég held að við verðum ekkert önnur 30 ár í einhverju lokuðu stöðnuðu kerfi. Það gengur ekki upp.

Steingrímur Leifsson, myndin er tekni af vefnum Kvótinn.is