

Þessi ljósmynd er tekin á Akureyri 1968. Á myndinni má sjá tvo drengi með skilti þar sem stendur Kjósið ekki Gunnar, en á kassabíl þeirra er strengdur borði þar sem er letrað Sameinumst um Kristján Eldjárn.
Þetta var í forsetakosningum og mikill hiti í fólki. Ég var 8 ára og man að börnum var líka heitt í hamsi. Flestir studdu Kristján Eldjárn og það var líklega heldur erfitt að vera hallur undir Gunnar Thoroddsen.
Kristján vann náttúrlega stórsigur í kosningunum.
Í baksýn má sjá bíl af Moskvits-gerð. Rússneskir bílar voru miklu algengari á Íslandi en víðast í Evrópu – merkilegt nokk voru þeir líka á götunum í Grikklandi. Þetta var vegna víðtækra verslunarsamninga Íslendinga við Sovétríkin. Hjá sumum var það pólitísk yfirlýsing að aka á Moskvits, Lödu eða Skoda – aðrir gerðu það vegna þess að slíkar bifreiðar voru ódýrar.
Myndina er að finna í Sarpi og segir að höfundur hennar sé Gunnsteinn Gunnarsson. Reyndar stendur líka að hún sé úr fórum Gunnars M. Magnúss rithöfundar. Gunnar var faðir Gunnsteins – stórmerkur maður sem skrifaði heimildabækur um Ísland í heimsstyrjöldinni fyrri og síðari, ritaði ævisögu Magnúsar Hjaltasonar, skáldsins á Þröm, skrifaði barnabækur og setti saman leikrit. Ég man að Gunnar kom í heimsókn í Vesturbæjarskóla þegar ég var barn, mér þótti mikið til þess koma hafandi lesið bækur hans um styrjaldirnar.
