
Flest bendir til að samkomulagið sem Grikkir þurfa að undirgangast sé einungis framhald af hinni sturluðu stefnu Troikunnar, ESB, Evrópska seðlabankans og AGS.
Krafan er um meiri niðurskurð og skattahækkanir. Þetta er í samfélagi sem er hyldjúpri kreppu, þar sem vantar mest af öllu skuldaniðurfellingu og fjármagn til að geta byggt upp að nýju.
Í upphaflega plani Troikunnar var gert ráð fyrir 6 prósenta samdrætti hagkerfisins og þetta átti að standa stutt. En þegar tíminn leið kom í ljós að samdráturinn var 25 prósent – það er eins og í kreppunni miklu í Bandaríkjunum.
Larry Eliott, efnahagsritstjóri Guardian, segir að áætlunin beri vott um algjöra vanþekkingu og sé dæmd til að mistakast. Það sé afar lítil eftirspurn í hagkerfinu og verðhjöðnun – meiri niðurskurður geri þessi vandamál enn erfiðari.
Paul Krugman hefur bent á að það sé búið að skera svo mikið niður að ekkert land í Evrópu sé með slíkan afgang af fjárlögum. Þetta súlurit er frá honum komið. Ef marka má það er Grikkland það ríki í Evrópu sem er ábyrgast í fjármálum.

Alexis Tsipras á í miklum vandræðum með að sannfæra Grikki og liðsmenn stjórnar sinnar að fallast á hið nýja samkomulag. Hann stríðir hins vegar við stóran veikleika sem gerir honum erfitt fyrir, Akkillesarhællinn nú eru bankarnir. Í síðustu viku komst út kvittur um að bankarnir grísku hefðu ekki nægt fé til að standa við skuldbindingar sínar og að þeir myndu varla þrauka fram á mánudag. Þetta lak einhvers staðar innan úr Evrópusambandinu og í nokkra daga stóð yfir áhlaup á bankana. Gríska stjórnin er komin upp á náð og miskunn Evrópska seðlabankans – sem segir annað hvort yfirgefi Grikkland evruna eða taki því sem að því er rétt.