
Tony Blair er einhver mesti óþurftarmaður í vestrænum stjórnmálum í seinni tíð. Hann virðist hafa trúað því að hægt væri að sigrast á öllu með nógu miklum spuna. Spunavélin í kringum hann malaði og malaði – þangað til enginn vissi hvað sneri upp eða niður.
Einhvern veginn spilltust stjórnmál í tíma Blairs, enda lærðu margir af honum. Í pólitískri umræðu mega jafn sjálfsagðir hlutir og sannsögli og einlægni sín afar lítils – því miður eru alltof margir stjórnmálamenn af sauðahúsi Blairs og margir hafa lært dyggilega af honum. PR-ið kringum stjórnmálin varð alveg stjórnlaust eftir hann.
Blair er líka einn af þeim stjórnmálamönnum sem hafa hagnast óskaplega á því að vera í pólitík. Hann er moldríkur. Það verður varla sérstök neyð á heimili hans þótt hjúkrunarbrasksfyrirtæki Cherie Blair, eiginkonu hans, sé farið á hausinn.
En óneitanlega verður manni hugsað til sjúkrahótelsins sem fjallað var um í Kastljósi í síðustu viku.