

Ég frétti lát elskulegs vinar, Jacques Mer, sem var sendiherra Frakklands á Íslandi á árunum 1988-1992.
Jacques var einstaklega líflegur maður, og varla hafa samskipti þessara ríkja blómstrað í aðra tíð eins og á tíma hans.
Jacques stóð fyrir alls kyns uppákomum og skemmtilegheitum, frægast var þegar hann dreif forsetana Mitterrand og Vigdísi til að hlusta á Sykurmolana í Duus-húsi.
Hann var mjög óhefðbundinn diplómati. Algjörlega laus við öll formlegheit og hann hafði sérlega gaman af því að hafa ungt fólk í kringum sig.
Þegar vinnudegi lauk á skrifstofunni setti Jaccques Bubba Morthens á fóninn og stillti á hæsta.
Ég sakna þess að heyra ekki framar kveðjuna hans:
„Egill, quoi de neuf?“ Hvað er að frétta, Egill?
Svona ávarpaði hann mig bæði þegar við hittumst og í bréfum. Og hann meinti það, Jacques hafði raunverulegan áhuga á Íslandi. Hann skrifaði bækur og greinar um land og þjóð og var oft mjög snjall í greiningu sinni. Fáa hef ég hitt sem eru jafn kvikir í kollinum og Jacques. Hann var menntaður í hagfræði og sögu en hafði líka komið við í pólitík á sjöunda áratugnum.
Jacques var fæddur 1927. Hann hafði lengi átt við vanheilsu að stríða sem gerði honum erfitt að tjá sig. Eiginkona hans yndisleg og stórmerk er Jacqueline – henni sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Stundirnar sem við dvöldum í sumarhúsi þeirra hjóna í Normandí – ásamt geitinni Esmeröldu – eru ógleymanlegar.

Þessa mynd hef ég ekki séð fyrr, en þarna er Jacques Mer í kosningabaráttu í París á sjöunda áratugnum.