
Niðurstöður skoðanakannana halda áfram að vera stórmerkilegar – í þeim felst hávær krafa um miklar breytingar á íslenskum stjórnmálum.
RÚV fékk Gallup til að greina nýjustu skoðanakönnunina með tilliti til búsetu. Þar er margt sem kemur á óvart.
Píratar eru langstærstir í höfuðborginni, með 40,4 prósenta fylgi í Reykjavík norður. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki nema 18,8 prósent, en Framsókn 3,8 prósent.
Píratar eru meira en 8 prósentustigum hærri en Sjálfstæðisflokkurinn í höfuðvígi hans, Suðvesturkjördæmi. Útreikningar sýna að þar fengju Píratar 5 þingmenn, en Sjálfstæðisflokkurinn 2.
Sterkasta kjördæmi Sjálfstæðisflokksins er er núorðið mesta sveitahéraðið, Norðvesturkjördæmi. Þar er flokkurinn með 28,8 prósent. Þetta er líka sterkt kjördæmi Framsóknar sem fær 19,5 prósent. Norðvesturland er eina kjördæmið þar sem Píratar eru ekki stærstir.
Norðausturland er sterkasta kjördæmi Framsóknar. Þar hefur flokkurinn 20,8 prósent. En líka þar eru Píratar stærstir með 23,4 prósent.
Og loks er það Suðurkjördæmi og þar eru niðurstöðurnar sláandi. Píratar með 34,2 prósent.
Samfylking, VG og Björt framtíð virðast svo ekki eiga sér viðreisnar von samkvæmt þessari skoðanakönnun. Sérstaklega er merkilegt að sjá hrun Bjartrar framtíðar.
Við þetta má svo bæta könnun MMR frá því fyrir viku en þar kom í ljós að fylgi Pírata á aldursbilinu 18-29 ára er 44,5 prósent en fylgi Sjálfstæðisflokks hjá þessum aldurshópi 12,5 prósent.