
Yfirvofandi eru lög á verkfall hjúkrunarfræðinga – það er dálítið spaugilegt að það skuli vera landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem dregur Svarta Pétur og mælir fyrir lögunum í þinginu. Sigurður Ingi sat uppi með svarta pétur.
Kannski fékkst ekki annar til þess, það er spurning hvað Sigmundur og Bjarni eru að hugsa – og svo eru það náttúrlega konurnar í ríkisstjórninni eins og til dæmis Ólöf Nordal eða Eygló Harðardóttir?
Þarna er að stórum hluta verið að setja lög á kvennastétt, meðan karlmennirnir á sama vinnustað, læknarnir, eru tiltölulega nýbúnir að gera feita og stóra samninga sem hleyptu kjarabaráttunni í landinu upp. En það virðist ekki vera hægt að veita konunum í hjúkrunarstörfunum sambærilegar kjarabætur.
Nema þá að dómurinn sem kemur saman til að úrskurða að ákveði að láta hækkanir læknanna ganga niður stigann – það væri sjálfsagt eðlilegast.
Þess má minnast að um árið vildi Vigdís Finnbogadóttir helst ekki skrifa undir lög á verkfall flugfreyja. Ráðherrar urðu henni mjög reiðir og hún fékk skammir fyrir.
Nú koma lög á aðra stétt – sem er mestanpart skipuð konum – það er rétt áður en hefjast mikil hátíðarhöld vegna afmælis kosningaréttar kvenna, 19. júní.