

Lengi þótti Íslendingum Norðmenn fjarska hallærislegir.
Það hefur breyst í seinni tíð af þeirri einu ástæðu að Norðmenn eru svo ríkir núna. Forðum var Noregur fátæktarbæli, 30 prósent norsku þjóðarinnar flutti til Vesturheims – mun hærra hlutfall en á Íslandi.
En nú fara Íslendingar til Noregs til að vinna og þiggja góð laun og það er meira að segja til hreyfing sem berst fyrir því að Ísland gangi í Noreg, verði fylki í því ríki.
Sjálfur er ég af norsku bergi brotinn. Alinn upp með ömmu sem talaði norsku, kunni talsvert í norsku sem barn, á heimilinu voru norskir fánar, eftirprentanir af norskum málverkum og myndir af fögrum stöðum í Noregi.
Foreldrar mínir kynntust þegar þau voru við nám í Osló, mamma vann um tíma sem miðastúlka í sporvagni, var í þartilgerðum einkennisbúningi – uppi í hillu heima voru bækur á norsku.
Þar á meðal var ritsafn Henriks Ibsen. Af einhverjum ástæðum dróst ég að því og þegar ég var unglingur var ég orðinn ibsenisti. Hafði lesið öll verk Ibsens og fór til Oslóar til að sjá hann leikinn á sviði – og sitja á Grand Café þar sem hann var fastagestur.
Ég gerði þetta af mikilli samviskusemi. Sat og las um Ibsen á landsbókasafninu í Osló – ég man að þar starfaði eldri kona sem spurði mig með blik í auga hvort ég þekkti nokkuð Kristmann Guðmundsson. Kristmann bjó um tíma í Noregi, skrifaði á norsku og var frægt kvennagull.
Ég var barasta ánægður með norskan uppruna minn – þótt vinir mínir sumir gerðu grín að honum. Ég minnti á að Norðmenn hefðu ekki bara átt mesta leikritaskáld Norðurlanda, heldur líka frægasta tónskáldið, Grieg, nafntogaðasta málarann, Munch, myndhöggvarann Vigeland og svo skáldsagnahöfundinn mikla, Knut Hamsun.
Ég skrifa þetta sökum þess að ég les að nú standi til að loka Grand Café. Það hefur verið í sínum hátimbruðu húsakynnum við Karl Jóhann í 140 ár og þar voru þeir fastagestir Ibsen og Munch. En reksturinn stendur víst ekki lengur undir sér. Það er víst engin trygging fyrir því að ekki komi Starbucks í staðinn.

Hin fræga veggmynd á Grand Café í Osló. Þarna sjást ýmsir þekktir listamenn og fastagestir, takið eftir Ibsen sem er að koma inn vinstra megin á myndinni, gneypur á svip eins og endranær.