
Einhver furðulegasta vending í íslenskum stjórnmálum í seinni tíð er fylgi Bjartrar framtíðar sem hvarf.
Flokkurinn var með 20 prósenta fylgi í skoðanakönnunum en er kominn í 3 prósent í nýjustu könnun.
Leiða má getum að því að mestallt fylgi BF sé farið yfir á Pírata. Er von á að það komi aftur? Nei, fátt bendir til þess.
Píratarnir virka beittari og klárari en BF – og það er eins og þeim liggi meira á hjarta. Í liði BF eru innan um ágætir stjórnmálamenn, en það er eins og einhver værð sé yfir hópnum og almennt hugsjónaleysi – líkt og það sé bara nóg að fá að taka þátt í hinum pólitíska leik.
Nú stingur einn þingmaður Bjartrar framtíðar upp á því að þingmenn hefji fundi með söng. Eitthvað hefði nú heyrst ef þessi tillaga kæmi úr Framsóknarflokknum!