
19. júní er merkisdagur, það eru liðin hundrað ár frá því konur á Íslandi fengu kosningarétt. Íslendingar voru nokkuð framarlega þegar kom að þessari sjálfsögðu réttarbót.
Dagurinn er haldinn í skugga þess að um daginn voru sett lög á verkfall hjúkrunarfræðinga, stéttar sem er einkum skipuð konum. Þannig að í rauninni er ekki viðeigandi að vera bara með hátíðarræður og mærð í dag. Baráttan fyrir jöfnum rétti kynjanna heldur áfram og hún tekur á sig ýmsar myndir.
Í Fréttablaðinu má sjá að ríkisstjórnin vill jafna hlut kvenna í fjölmiðlum í tilefni dagsins, það er sjálfsagt mál, en þegar skoðuð er mynd með fréttinni sést að í stjórninni eru 6 karlar og 4 konur. Það er líka alveg ljóst að konurnar í stjórninni eru ekki í hópi áhrifamestu ráðherranna – það er eiginlega þvert á móti.
Kona varð fyrst forsætisráðherra á Íslandi 2009 og konur verða sjaldan formenn stjórnmálaflokka. Það hefur ekki breyst. Til dæmis hefur kona aldrei verið formaður Sjálfstæðisflokksins og einungis örstutta hríð var kona formaður Framsóknar.