
Ég er á leið til Grikklands, ég hef ekki lengur tölu á skiptunum sem ég hef komið þangað.
Um tíma, eftir hrun, fór ég með talsvert af evruseðlum til Grikklands, því þá var talið að ríkið kynni að fara á hausinn og allt peningakerfi hætt að virka.
Svo fór ég að vera kærulaus og er það enn. Ég er ekki með peningaseðla í þetta skiptið.
En nú les ég að milljarður evra hafi horfið úr grískum bönkum undanfarið. Aftur er talin hætta á þjóðargjaldþroti, sjálfur gríski seðlabankinn varar við því. Christine Lagarde, forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, segir að Grikkir fái ekki frestun á endurgreiðslu stórs láns sem er útistandandi.
Stefna AGS gagnvart Grikklandi er sjóðnum til ævarandi skammar. Það er einkennileg hugmyndafræði að hægt sé að endurreisa hagkerfi með því að skera endalaust niður. Í Grikklandi hefur afleiðingin verið fjöldaatvinnuleysi og landflótti.
Alexis Tsipras forsætisráðherra er nokkur ráðgáta. Hann nýtur enn mikils stuðnings í Grikklandi, en nú er stjórn hans líkt og komin á brún hengiflugs. Tsipras er í störukeppni við AGS og Evrópusambandið. Reynslan sýnir samt að líklegt er að einhvers konar samkomulag náist á endanum, en mikill skaði er þegar skeður.
En líkt og sagnfræðingurinn Mark Mazower bendir á í viðtali við gríska blaðið Kathimerini er illa komið fyrir Evrópusambandinu að því leyti að þar ríkir mikið óþol gagnvart því að rétta öðrum ríkjum hjálparhönd. Eiginhagsmunastefna hefur farið vaxandi og það boðar ekki gott fyrir sambandið.
Á móti er Grikkjum tamt að telja að mestöll vandræði þeirra séu útlendingum að kenna. Svo hefur það lengi verið. En það ekki skýringin á núverandi krísu, heldur spillingarkerfi sem hefur fengið að grassera áratugum saman í skjóli ríkjandi stjórnmálaflokka.
Gríska vinstrið lifði lengi í draumaheimi sem byggður var úr minnum úr borgarastríðinu á árunum eftir heimstyrjöldina og frá tíma herforingjastjórnarinnar. Það var einangrað úti í horni. Nú er það hins vegar við völd og þá er staðreyndin sú að Tsipras þarf að samkomulagi að halda – og meiri tíma.