
Ég verð að viðurkenna að ég næ eiginlega engu sambandi við uppnámið út af íslenskum mannanöfnum.
Kannski finnst mér ekki skipta neinu sérstöku máli hvað maður heitir. Maður fær nafn þegar maður er barn, hefur ekkert um það að segja, venst því seinna.
Nomina sunt odiosa er latneskur frasi, ég hef reyndar aldrei almennilega skilið hvað hann þýðir – en íslenska útgáfan myndi hljóma einhvern veginn svona:
Nöfn eru hvimleið.
Ég get ekki varist því að baráttan fyrir því að velta mannanafnanefnd og gefa mannanöfn frjáls sé hugsjón fyrir hugsjónalausa. Svona rétt eins og sú hugsjón að breyta klukkunni eða setja áfengi í matvörubúðir.
Ekkert af þessu skiptir neinu máli um raunverulega líðan okkar eða breytir neinu sem skiptir máli um samfélagið sem við lifum í.
Líklega deyr íslenska mannanafnakerfið út ef nafngiftir verða gefnar frjálsar, en það er þá bara svo. Það eykur ekki eða minnkar vellíðun okkar svo neinu nemi.
Meikar ekki diff, var einu sinni sagt. Það á við í þessu tilviki.