

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þyrfti að læra að njóta stundarinnar. Ríkisstjórn hans hefur náð mjög góðum áfanga – og það má Sigmundur eiga að hann var einna fyrstur til að færa í tal möguleikana á að ná fé út úr kröfuhöfum bankanna. Hann má semsagt vel við una. Það er meira að segja líklegt að þetta verði honum til fylgisaukningar. Eins og glöggur maður sagði við mig í morgun, Sigmundur sá fyrr en aðrir að þarna var pólitískur eldsmatur.
En stundum er eins og vanti einhvern stoppara í Sigmund. Hann skal alltaf velja átök þótt friður sé í boði – og friðurinn gæti í raun komið honum betur.
Hann kemur fram í fréttum Sky og fer að tala um ESB, að það hafi skipt sköpum fyrir Íslendinga að vera ekki í ESB.
Þessi yfirlýsing er einhvern veginn alveg óþörf – enda má fara lengra aftur í tímann og sjá að það hefði aldrei verið nein snjóhengja ef ekki hefði verið íslenska krónan og vonlaus stjórnun fjámála á fyrstu árum aldarinnar.
Það er heldur ekki eins og við séum laus við höft eða vandræði sem hljótast af krónunni. Halldór Baldursson túlkar þetta afskaplega vel í Fréttablaðinu í dag.
