

Elín Pálmadóttir er í hópi þeirra íslenskra blaðamanna sem ég ber mesta virðingu fyrir. Hún átti glæsilegan feril á Morgunblaðinu, á tímanum þegar það bar höfuð og herðar yfir önnur íslensk blöð.
Svo helgaði Elín sig rannsóknum á sögu franskra fiskimanna við Íslandsstrendur. Útkoman var stórkosleg bók sem nefnist Fransí biskví, hún kom út á frönsku undir heitinu Les Pêcheurs Français en Islande.
Þetta er mikil örlagasaga – frönsku sjómennirnir lentu oft í miklu harðræði við Íslandsstrendur og þúsundir týndu lífinu. Heima í þorpum á Bretagneskaga biðu konur og börn – og er líka mikil saga af því.
Nú hefur Elín fengið æðsta heiðursmerki sem veitt eru í Frakklandi, Ordre National de la Légion d’Honneur. Hún á það svo sannarlega skilið – ég samgleðst innilega.

Hér er mynd sem er tekin við orðuveitinguna í gær, hún er fengin af síðu Jóns Þórs Hannessonar.