
Flugvöllurinn í Reykjavík er ævintýraleg tímaskekkja.
Það sést best á því að umferð í innanlandsflugi minnkar stöðugt og erlendum ferðamenn nota ekki þennan samgöngumáta þótt þeim fjölgi stöðugt.
Um helmingur þeirra sem nota innanlandsflugið borga ekki miðana sjálfir – það segir líka sína sögu.
Af einhverjum ástæðum er haldið úti flugi til Færeyja og Grænlands frá Reykjavík, eins og til að sanna að þetta sé þrátt fyrir allt millilandaflugvöllur. Þessu flugi væri hæglega hægt að sinna frá Keflavík.
Og þá er ótalið æfinga- og kennsluflugið, rellurnar sem sveima yfir Reykjavík alla daga með tilheyrandi hættu og hávaðamengun. Því hefur reyndar margoft verið lofað að þetta flug verði flutt burt.
Á öllu þessu má finna lausn sem hentar Reykjavík og hentar líka landsbyggðinni. Það er bara spurning um að nálgast málið ekki með þvergirðingi og ekki með því hugarfari að flugvöllurinn sé aðalmálið í samskiptum borgarinnar og staða úti á landi.
Hann er hins vegar orðinn að einhvers konar sári sem sífellt er hægt að ýta á til að framkalla óhljóð og vein. Og pólitíkusar, sem hafa ella lítið fram að færa, ganga á lagið eins og sá sem lætur sér detta í hug að svipta Reykjavík skipulagsvaldi sínu.
Það er óhugsandi að innanríkisráðherra geti fallist á slíkt.